149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stutta svarið við þessu er það að við höfum engar upplýsingar um þetta. Gróft mat, hvort tveggja frá Daða Má Kristóferssyni sem hann vann á sínum forsendum og sömuleiðis létu Bændasamtökin vinna ákveðna úttekt, gerir ráð fyrir töluvert miklum breytingum í neyslu. Það er alveg óhjákvæmilegt að ætla að þessu fylgi einhverjar breytingar. Það held ég að hljóti að vera, en það þarf ekkert endilega að vera samasemmerki á milli þess að þetta verði hrein viðbót við þá neyslu sem fyrir er. Það kann að vera að í einhverjum tilteknum kjötafurðum sem fluttar yrðu inn ófrosnar dragist sala saman í því sem hingað til er flutt inn frosið. Staðreyndin er sú að hinn íslenski kjötmarkaður er þannig að um fjórðungur af íslenskum kjötmarkaði, í nauti, svíni og alifuglakjöti, um 25% er innflutt kjöt á markaði. Innflutningur á milli áranna 2017 og 2018 dróst saman þrátt fyrir þennan umdeilda tollasamning sem tók gildi 1. maí 2018.

Það að reyna að spá fyrir um breytingar á þessum markaði er ekki auðvelt og menn reyna einhvern veginn að námunda það. Við getum dregið reynslu, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, af því sem garðyrkjan gekk í gegnum. Það er í mínum huga alveg óumdeilt að það verður eitthvert högg við allar svona breytingar og við þurfum að leggja okkur fram um að reyna að mæta því með einhverjum ábyggilegum og uppbyggilegum hætti.