149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir hans framsögu hér. Eðli málsins samkvæmt hljótum við að spyrja, vegna þess að úti í samfélaginu ríkja ákveðnar efasemdir um að við séum að gera rétt. En jú, Hæstiréttur, héraðsdómur, EFTA-dómstóllinn — allir hafa stigið fram og sagt okkur að ef við ætlum að taka þátt í þessu með þeim stóru og undirgangast skilmála, hvað þá þegar við semjum sérstaklega við þá um hlutina, sé ekkert annað í boði en að standa við gerða samninga. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við höfum fengið að heyra ýmislegt. Mig langar að vísa í það sem er verið að birta núna, 27. febrúar, af þessum sérfræðingum hjá Matvælastofnun, að í sameiginlegri skýrslu frá Matvælaöryggisstofnun Evrópu, EFSA, og Sóttvarnastofnun Evrópu, ECDC, sem kom út núna í febrúar, komi fram að aukið sýklaónæmi mælist í bakteríum sem smitast á milli dýra og manna eins og salmonellu og kampýlóbakter og allt þetta.

Við vitum að við hljótum að mega njóta vafans. Við hljótum að verða að líta til framtíðar um það hvað við erum að gera. Við erum með sérstöðu, við erum með algjörlega hreina afurð. Erum við að taka óþarfa áhættu og hvers eru þeir megnugir þessir svokölluðu sérfræðingar í embættismannakerfinu, sem hæstv. ráðherra verður svo tíðrætt um og vísar til? Hversu bærir eru þeir til þess að vita meira en aðrir sóttvarnalæknar og aðrir sérfræðingar sem koma fram með allt aðra sögu og allt aðra sýn?

Það væri kannski á einhverjum tímapunkti rétt að við hreinlega byðum öllum þessum Evrópulöndum að rækta handa þeim hreint og almennilegt kjöt. Hæstv. ráðherra, hvað vitum við? Hvernig getum við gengið út frá þessu sem vísu og væri hugsanlegt að lýðheilsusjónarmið landans gætu ráðið einhverju þegar við erum að semja við Evrópusambandið um þessi mál?