149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að maður verði einhvern tímann það sem kallað er vegan; maður á aldrei að útiloka nokkurn skapaðan hlut í lífinu. Í tengslum við þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur af sýklalyfjaónæmi og öðru því um líku segi ég: Þess vegna erum við að taka á málinu. Hér liggur stefna íslenskra stjórnvalda í fyrsta skipti fyrir, hún liggur fyrir í tíu liðum. Það er farið að vinna eftir henni. (IngS: Eru þeir þá hættir að gefa sýklalyf þarna úti?) Við erum að taka ákvarðanir fyrir Ísland, íslenska neytendur, íslenska bændur, fyrir íslensk stjórnvöld um okkar eigin mál. Við höfum enga stjórn á Evrópusambandinu og kærum okkur heldur ekkert um að hafa hana. Við þurfum hins vegar að byggja okkur sjálf upp, grípa til þeirra viðbragða sem okkur eru fær. Það erum við að gera, núverandi ríkisstjórn. Ég nefndi það í framsöguræðu minni að við höfum þegar gengið frá stefnumörkun, ég og hæstv. heilbrigðisráðherra, á þessu sviði sem hv. þingmaður hefur svona miklar áhyggjur af, sem full ástæða er til.