149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er vissulega mjög alvarleg staða sem er tilefni þess að við erum að fjalla um þetta mál hér í dag. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög vandaða framsögu og vísa til þeirrar aðgerðaáætlunar í 12 liðum sem hann hefur kynnt. Þar er liður sem er mjög veigamikill og er gert ráð fyrir að verði lögfestur í 3. gr. þess frumvarps sem liggur fyrir og er það atriði sem ég vil spyrja ráðherra aðeins út í.

Ég er upplýstur um að ekki sé skimað fyrir kampýlóbakter, svo að maður taki sér það lítt fagra orð í munn, í kjúklingaeldi og slátrun í Evrópu. Hefur ráðherra látið kanna, t.d. með því að afla lögfræðilegs álits, hvort það ákvæði sem þarna er fjallað um, þ.e. að óheimilt sé að dreifa alifuglakjöti nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter, sem væntanlega felur í sér einhvers konar kröfu um vottorð, gæti mögulega reynst vera samningsbrot eins og frystiskyldan, vegna þess að hún að sama skapi fól í sér kröfu um vottorð?