149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi það sem hann gerir að umtalsefni, hvort þetta geti verið hugsanlegt samningsbrot, tel ég svo ekki vera af hálfu Íslands. Við erum ekki að banna innflutning. Við erum hins vegar að setja skilyrði fyrir dreifingu matvæla á íslenskum markaði. Við setjum reglurnar þar, þegar vara er komin inn fyrir landamæri okkar. Við erum ekki að reisa varnir á landamærum eins og frystiskyldan gerði.

Það er alveg rétt að ekki er skimað fyrir þessu. Við höfum það verklag að skima fyrir eldishópa áður en þeir fara í slátrun og svo er skimað aftur eftir slátrun o.s.frv., það eru reglur. Þetta er íslenska aðferðin. Við hins vegar gerum kröfu um vottorð á markaði hjá okkur áður en vöru er dreift.

Þetta er regluverk sem ég tel að standist og er mjög einbeittur í þeirri skoðun minni. Ég hef kynnt þetta hvort tveggja fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnuninni ESA og upplýst hvernig við förum í það. Ég treysti því einfaldlega að við stöndum saman um það regluverk sem hér er verið að setja upp, vegna þess að mesta ógnin og raunar nánast sú eina við þá breytingu sem við erum að gera er hættan á kampýlóbaktersmiti vegna alifuglakjöts. Sú leið sem hér er sett upp á að girða fyrir þá hættu. Hún á að halda eins og hún hefur haldið gagnvart íslenskri framleiðslu í alifuglakjöti.