149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fyrir að veita innsýn í eins konar baksvið þessa ákvæðis í 3. gr. og hvernig það er hugsað. Þetta er mjög upplýsandi. Ég vil vegna orða hæstv. ráðherra taka fram að ekki mun skorta, a.m.k. ekki af minni hálfu, á stuðning við aðgerðir sem fallnar eru til þess að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.

Ég ætla að leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldinu hvaða áform eru um framkvæmd á því eftirliti sem þarna er lagt upp með. Er gert ráð fyrir að þetta verði falið tiltekinni stofnun eða er gert ráð fyrir nýrri stofnun? Í öllu falli, er framkvæmdin fjármögnuð eða er það rétt skilið að fram hafi komið í umræðum um fjármálaáætlun að svo væri ekki?