149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[15:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka stuðninginn við þau meginmál sem hv. þingmaður nefndi. Við deilum einfaldlega þeirri afstöðu því að sá sem hér stendur hefur engan hug á því að veikja stöðu okkar á því sviði, ekki með nokkrum hætti, og þess vegna hefur málið m.a. tekið þennan tíma í vinnslu. Má nefna til viðbótar því sem hv. þingmaður nefndi áðan varðandi vottorðin að þau fyrirtæki sem hafa staðið í þeim málum gera engar athugasemdir við þá aðferð sem er lögð til í frumvarpinu, í tengslum við samráðsgáttina hefur enginn gert athugasemdir við þetta þannig að menn líta á það sem eðlilegt.

Varðandi hins vegar meðferðina á því og hinn kerfislega þátt er einfaldlega gert ráð fyrir því að þetta verði með sambærilegum hætti og fari í gegnum sömu ferla eins og vottorðakrafan er gagnvart íslensku framleiðslunni. Þetta endar á því að Matvælastofnun eða einhver á hennar vegum gefur út heimildina fyrir dreifingu.

Hvað varðar umræðu um fjármögnun liggur fyrir að þær aðgerðir sem við höfum nefnt eru fjármagnaðar og gert ráð fyrir þeim í fjárlögum.