149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um aðdraganda að gerð þess og vísað til dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, Hæstaréttar og EFTA-dómstólsins, sem í stuttu máli fela í sér að íslenska ríkið hafi brotið gegn sínum skyldum samkvæmt EES-samningnum með því að viðhalda núverandi leyfisveitingakerfi við innflutning á hráu kjöti, eggi og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Talið var að leyfisveitingakerfið mætti ekki réttlæta á grundvelli 13. gr. EES-samningsins.

Það er mjög merkilegt að það skuli ekki hafa tekist að halda þessu ákvæði til streitu og rétt að rifja það aðeins upp. Í 13. gr. samningsins segir:

„Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta […] Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.“

Þetta ákvæði er mjög skýrt og verður að segjast eins og er að það eru mjög mikil vonbrigði og sérstakt að ekki skuli vera horft til þessa ákvæðis þegar þetta mál kemur upp af hálfu Evrópusambandsins. Það vekur mann líka til umhugsunar og rétt að nefna það í tengslum við hinn svonefnda orkupakka þrjú, sem nú er væntanlegur frá ríkisstjórninni, að það hefur komið fram að ríkisstjórnin er afar ánægð með að náðst hafi fyrirvarar sem viðurkenni okkar sérstöðu í þeim efnum. Við eigum eftir að sjá það allt saman og fara yfir það mál mjög gaumgæfilega þegar að því kemur, en maður spyr sjálfan sig: Ef það var svona auðvelt að fá þessa fyrirvara gagnvart þriðja orkupakkanum, hvers vegna var ekki hægt að fá viðurkennda þessa sérstöðu hvað varðar okkar landbúnað, okkar búfjárstofna sem hafa verið hér í landinu í aldir og eru mjög hreinir miðað við það sem gerist í Evrópu? Þetta er mikið umhugsunarefni og tími til þess að velta því gaumgæfilega fyrir sér og ræða nánar.

Í landbúnaðarkafla EES-samningsins segir í 18. gr. að 13. gr. skuli gilda og þar eru engir fyrirvarar nefndir. Fræðimenn hafa bent á að það sé rökrétt að halda því fram að samningsaðilar hafi mátt treysta því að 13. gr. EES-samningsins myndi gilda orðum sínum samkvæmt. En svo kemur á daginn að þetta er nánast túlkað út af borðinu, til hagsbóta fyrir viðskiptafrelsi á kostnað heilbrigði búfjárstofna og lýðheilsu. Þarna er mikilvægt ákvæði sem heldur ekki og verður svo sannarlega mikilvægt að koma því sjónarmiði að þegar við ræðum um orkupakkann, eins og ég nefndi áðan.

Frú forseti. Ég vil víkja að umsögn Bændasamtaka Íslands um þetta frumvarp. Við í Miðflokknum erum sammála Bændasamtökunum hvað þetta varðar. Þetta er mjög vönduð umsögn frá samtökunum en þau taka undir efasemdir sem fræðimenn hafa lýst um það hvort EES-ríkin séu raunverulega á jafnréttisgrundvelli gagnvart Evrópusambandinu þegar kemur að undanþágum. Þá er nefnilega mjög athyglisvert að skoða 114. gr. Lissabon-sáttmálans, sáttmála Evrópusambandsríkjanna. Í þeirri grein kemur fram að álíti aðildarríki, eftir að Evrópuþingið og ráðið eða framkvæmdastjórnin hefur samþykkt ráðstöfun til samræmingar, að óhjákvæmilegt sé að viðhalda innlendum ákvæðum sem helgast af grundvallarþörfunum sem um getur í 36. gr., sem ég kem að á eftir, eða af sjónarmiðum um umhverfisvernd eða aðbúnað á vinnustað, skal það tilkynna framkvæmdastjórninni þessi ákvæði og tilgreina ástæðurnar fyrir því að viðhalda þeim. Þetta þýðir að ríki innan Evrópusambandsins geta haldið í ákveðin ákvæði sem varða þeirra sérstöðu þrátt fyrir samræmingu laga sem kveðið er á um í 114. gr. Lissabon-sáttmálans. Þetta er ótvíræður réttur ríkja innan Evrópusambandsins, en hins vegar gildir þetta ekki þegar kemur að EES-samningnum. Þar getum við ekki haldið regluverki okkar sem lýtur að okkar sérstöðu.

Þetta er mjög athyglisvert og ég held að þetta séu nefnilega mjög veigamikil rök sem hefði verið hægt að beita í viðræðum við Evrópusambandið um að það viðurkenndi okkar sérstöðu í þessu máli. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda þessu til haga. Þetta sýnir ákveðinn tvískinnung af hálfu Evrópusambandsins hvað þetta varðar. Evrópuríkin eiga rétt á því að tekið sé tillit til ákveðinnar sérstöðu þeirra, að sjálfsögðu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en því er hins vegar ekki fyrir að fara hvað varðar EES-samninginn. Það vekur náttúrlega upp spurningar um það hvers vegna gengið er harðar fram gagnvart aðildarríkjum EES-samningsins heldur en innan Evrópusambandsins sjálfs.

Í kjölfar yfirlýsingar Bændasamtakanna í tengslum við frumvarpið kom m.a. fram að samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim að fyrirhugað væri að heimila dreifingu á ógerilsneyddum mjólkurafurðum. Þá sendi ráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem ítrekað var að ekki væri fyrirhugað í tengslum við frumvarpið að gera breytingar á núgildandi regluverki um dreifingu á ógerilsneyddum mjólkurvörum. Mjólk sem dreift er til neytenda skuli vera gerilsneydd og mjólkurvörur unnar úr gerilsneyddri mjólk samkvæmt ákvæði reglugerðar. Bændasamtökin benda á að það sem er hins vegar athyglisvert við þetta, og við í Miðflokknum tökum heils hugar undir það, er að efni áðurnefndra frumvarpsdraga og leiðréttingarinnar er óskýrt. Samkvæmt 10. gr. núgildandi reglugerðar, nr. 488/2012, með síðari breytingum, er innflutningur á ógerilsneyddum mjólkurvörum óheimill. Lagastoð þessa reglugerðarákvæðis má segja svolítið hæpna því að bannið kemur ekki fram í áðurnefndum lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim heldur eru fyrir hendi almennar reglugerðarheimildir.

Það má því skilja núverandi stöðu á tvo vegu, annað hvort svo að innflutningur á ógerilsneyddum mjólkurvörum sé bannaður eins og framkvæmdin hefur verið eða að hann sé það ekki, því lagastoð skortir. Þessu er mikilvægt að halda til haga.

Verði frumvarp þetta að lögum verður sett ákvæði í dýrasjúkdómalögin um bann við innflutningi á ógerilsneyddri mjólk og mjólkurafurðum frá öðrum löndum en EES-ríkjum, Sviss, Grænlandi og Færeyjum. Það mætti því leggja þann skilning í ákvæðið að innflutningur á þessum tilteknu vörum frá EES-ríkjum, Færeyjum, Grænlandi og Sviss sé heimill og er í sjálfu sér um eðlilega gagnályktun þar að ræða. Það myndi auk þess líklegast líka gilda þó að reglugerðarákvæði stæði óbreytt þar sem lög ganga framar reglugerðum eins og kunnugt er og reglan er nýrri en ákvæðið í reglugerðinni. Það er auk þess í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og skuldbindingar gagnvart EES-samningnum eins og EFTA-dómstóllinn skýrir hann, en það eru sterk sjónarmið þegar kemur að því að skýra íslensk lagaákvæði. Það er því eðlilegt að skilja málið þannig að drögin að frumvarpinu feli í sér tillögu um breytingar á reglum um innflutning á ógerilsneyddri mjólk þrátt fyrir það sem segir í tilkynningunni.

Bændasamtökin telja óeðlilegt að ráðherra líti fram hjá niðurstöðu EFTA-dómstólsins, að innflutningsbann á þessum afurðum sé ólöglegt á meðan brugðist er við öðrum niðurstöðum. Eins og EFTA-dómstóllinn hefur skýrt skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum brýtur 3. gr. reglugerðar nr. 448/2012 gegn þeim. Verði reglugerðarákvæðið fellt úr gildi er ekki í lögum eða öðrum reglugerðum bann við því að ógerilsneydd mjólk og mjólkurafurðir séu fluttar inn til eigin nota svo lengi sem afurðirnar fara ekki á markað.

Bændasamtök Íslands hafa ítrekað bent á að vísindaleg rök stjórnvalda í málflutningi sínum fyrir dómstólum um áhættu vegna aukins innflutnings á framangreindum afurðum hafa ekki verið dregin í efa. Aðstaða íslensks landbúnaðar til að keppa við erlenda framleiðslu getur ekki talist jöfn og greinin býr yfir ýmiss konar sérstöðu sem auðvelt er að glata. Sérfræðingar hafa bent á að afnám takmarkana á innflutningi, svo sem frystiskyldunni, muni þýða verulega aukna hættu á ýmsum sviðum fyrir heilsu manna og dýra. Matarsýkingum fjölgi og meiri hætta verði á að hingað berist bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Engin önnur Evrópuþjóð skimar jafn vel fyrir kampýlóbakter enda er árangur Íslands mjög góður í baráttunni og telst í raun öfundsverður, en sýkingar af völdum bakteríanna eru algengar matarsýkingar í Evrópu. Sýkingar af völdum baktería sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum eru taldar eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamálið í heiminum í dag og sterk tengsl eru á milli þessa og sýklalyfjanotkunar í landbúnaði. Samkvæmt gögnum frá Lyfjastofnun Evrópu frá 2015 er sýklalyfjanotkun í landbúnaði í Evrópu allt upp í 88 sinnum meiri þar sem hún er mest en hér á landi.

Þá er óumdeilt að innlendir búfjárstofnar hafa búið við langa einangrun og aldrei komist í snertingu við smitefni margra búfjárstofna sem eru landlæg í Evrópu og víðar. Berist hingað smit, sem er líklegt að geti valdið miklu tjóni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, þá hefur íslenskur landbúnaður ekki aðgang að neinum tryggingasjóði vegna tjóns af völdum búfjársjúkdóma eins og er fyrir hendi í Evrópusambandinu, að frátöldum bótagreiðslum vegna niðurskurðar í sauðfé. Ríkissjóður þyrfti að bæta bændum slíkt tjón og það kom fram í andsvari hæstv. ráðherra áðan.

Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að fela Matvælastofnun að annast framkvæmd sýnatöku, stofnuninni sé heimil skyndiskoðun, sýnataka o.s.frv. Ákvæðið er að mati Bændasamtakanna í lausu lofti og leggja þarf áherslu á að tryggja þurfi fjármagn til að framkvæma þá vöktun, eftirlit og sýnatöku sem er nauðsynleg. Það kom fram áðan að þetta er viðamikið verkefni sem var ekkert kveðið á um hvernig ætti að fjármagna í fjármálaáætlun. Það er nú eitt af mikilvægustu rökunum hvað varðar þessa aðgerðaáætlun sem er kveðið á um í þessu frumvarpi. Það verður að fá það alveg skýrt hvernig þetta verður fjármagnað og hvernig þessu eftirliti verður háttað yfir höfuð.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði, þar sem kveðið er á um skilyrði um að sláturafurðir alifugla sem dreift er á markaði ómeðhöndluðum, skuli vera af sláturfuglum þar sem staðfest hefur verið með sýnatöku á eldistíma að ekki hafi greinst kampýlóbakter, bætist við 8. gr. a í matvælalögum.(Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég hef töluvert meira fram að færa í þessari umræðu en sé að tíminn er búinn. Ég óska hér með eftir að ég verði settur aftur á mælendaskrá til að halda áfram umfjöllun minni um þetta mikilvæga mál.