149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:15]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að rifja upp að árið 1947 gaf landbúnaðarráðherra, sem þá var, út stóra og mikla skýrslu um afleiðingar þess að hér var flutt inn Karakúlfé, sem var á þeim tíma ein af þeim ákvörðunum sem Alþingi hafði tekið til að efla íslenskan landbúnað. Og hvers vegna, virðulegi forseti, byrja ég ræðuna á því að rifja þetta upp? Jú, það er vegna þess að afleiðingar af þeim innflutningi voru hörmulegar.

Þar var nú ekki kastað til höndunum. Þar var verið af biturri reynslu að reyna að vanda innflutning á lifandi fé til þess að verjast dýrasjúkdómum. Þeir kynbótagripir sem voru fluttir inn voru með fullkomnum vottorðum, en afleiðingarnar af þessum innflutningi voru hrikalegar. Þær voru næstum svo alvarlegar — eða ekkert næstum, þær voru það alvarlegar — að það þurfti að skipta um fjárstofn. Það voru felldir stofnar bænda í héruðum. Það voru fjárflutningar á milli landshluta. Því að sem betur fer áttum við einangruð héruð sem áttu hreina stofna til þess að endurreisa sauðfjárræktina á þeim tíma.

Ég vil byrja á því að rifja þetta upp vegna þess að við verðum við hvert skref sem við stígum í þessum efnum að vanda okkur sérstaklega vel. Ég er ekki með þessu að boða hrun í landbúnaði eða hamfarir af þeim toga sem þarna voru, en við skulum vera alveg meðvituð um að minnstu mistök í þessu geta verið mjög alvarleg. Við höfum þessa einstöku stöðu sem hæstv. ráðherra rakti hér í sinni ítarlegu framsöguræðu, sem ég vil þakka honum fyrir, um hver okkar sérstaða sé með því hvað við höfum fáa búfjársjúkdóma.

Við höfum búfjárstofna hér á landi sem eru í þeirri stöðu að sjúkdómar sem hingað geta borist og eru ekki taldir alvarlegir í öðrum löndum geta gert mikla skráveifu. Þannig hefur t.d. á undanförnum árum borist hingað smit sem varð valdur að miklum skaða í íslenskri hestamennsku. Það var ekki einu sinni álitinn hættulegur sjúkdómur þar sem hann var landlægur á meginlandinu. Þetta eru allt saman atriði sem við þurfum að horfa til þegar við gerum slíkar breytingar sem þetta lagafrumvarp undirbyggir — svo vel megi fara.

Ég tel, virðulegi forseti, að við séum komin í þessa stöðu af því að við höfum ekkert endilega nýtt okkur vel þau tækifæri sem EES-samningurinn þó færði og það samkomulag sem við gerðum við Evrópusambandið árið 2005 um upptöku á matvælalöggjöfinni, til þess sem hæstv. ráðherra rakti í sinni framsögu, að liðka um fyrir útflutningi sjávarafurða. Ég tel að eftir að Alþingi hafnaði frumvarpi þessa efnis sem innihélt ekki frystiskyldu í tvígang hér árin 2007 og 2008, að mig minnir, hafi verið ástæða fyrir íslensk stjórnvöld að fara til Evrópusambandsins og reyna að fá skilning á því að það væri ekki vilji fyrir þessum breytingum sem hér voru lagðar til.

En stóra tækifærið til þess að fá skilning á þessari sérstöðu Íslands var eftir að við afgreiddum matvælalöggjöfina árið 2009, ef ég man rétt, virðulegur forseti. Því að þá höfðum við tíma til að koma upp þeim vörnum sem ekki gæfu eftir. Það var ekki gert.

Ég las um það í ágætri grein sem fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem þá flutti þetta mál, skrifaði í Bændablaðið fyrir ekki löngu síðan, að hann hafi haft í hyggju að sækja þær varnir en ekki gefist tími eða tóm til þess. Ég ætla ekkert að rekja ástæður þess neitt sérstaklega. En þetta tel ég vera þá tvo megintímapunkta þegar við sóttum ekki þær varnir gagnvart því sem við núna stöndum frammi fyrir — vegna þess að það hafa gengið dómar og dómum þurfum við að hlíta.

Þess vegna fagna ég sérstaklega þeim viðbótaraðgerðum sem hæstv. landbúnaðarráðherra kynnir hér með þessum lagabreytingum. Aðgerðum sem er í einum 12 liðum. Ég vil segja, virðulegur forseti, að ég hef ekki í langan tíma séð jafn rösklega gengið fram í því að reyna að slá skjaldborg utan um þessa stöðu og utan um hagsmuni landbúnaðarframleiðslunnar og hæstv. ráðherra gerir með sínum aðgerðum. Ég vona og beini því til hv. atvinnuveganefndar þegar hún fær málið til meðferðar að hún leggist nú yfir það, bæði með hæstv. ráðherra og með þeim sem koma til með að veita nefndinni umsögn í sinni vinnu, að taka utan um þennan aðgerðapakka með það fyrir augum að gera hann þannig úr garði að hann verði sú viðbótarvörn sem við þurfum á að halda. Það tel ég vera hina einu raunhæfu leið. Allt annað sem haldið er fram að sé hægt að gera er í mínum huga óskhyggja. Og við þurfum ekkert á óskhyggju að halda í þessum efnum lengur. Við þurfum á raunverulegum aðgerðum að halda.

Ég ætla ekki að álasa þeim landbúnaðarráðherra sem stóð hér í stafni árið 2005 og þeirri ríkisstjórn sem þá var og fékk einungis undanþágu fyrir innflutningi á lifandi dýrum, því þar höfðum við mjög skýra stöðu. Þar höfðum við mjög dapra reynslu, eins og ég rakti í upphafi ræðunnar, og það var í raun og veru það sem grundvallaði það að við fengum undanþáguna á lifandi dýrum, sú þekking og sú greining sem var á íslenskum búfjárstofnum.

Mér kemur á óvart þegar ég hlusta núna á hæstv. landbúnaðarráðherra, sem ég hef gert á nokkrum kynningarfundum um þetta frumvarp, er hann segir að hann hafi fengið viðurkenndar viðbótartryggingar á salmonellu vegna kjúklingaræktarinnar, en að hún hafi ekki fengist vegna svínaræktar eða vegna nautakjötsframleiðslu. Mér kemur það á óvart því að ég taldi sýnatöku og rannsóknir á þessu sviði vera mun betri en virðist vera.

Og þar er þá kannski enn og aftur kominn fram grunnurinn að þeirri stöðu sem við kannski erum í — eða erum í, ekkert kannski. Grunnurinn er sá að við erum ekki að byggja á nægjanlegum rannsóknum og þekkingu til þess að geta varið okkar stöðu. Það er því miður hin kalda staðreynd þessa máls og við sitjum uppi með tjónið af því.

Þetta segi ég líka til þess að reyna að skerpa enn frekar á því að þær aðgerðir sem eru boðaðar með þessu frumvarpi verða að vera þannig úr garði gerðar að það sé fyrirhafnarinnar virði að leiða þær í lög og að þær séu ekki skotnar niður daginn eftir að þær eru samþykktar. Við skulum alveg búa okkur undir það að þær verði teknar og settar undir smásjána og reynt að bora á þær göt.

Í allri þessari umræðu verður ekki undan því vikist að nefna það, þar sem oft má ráða annað af almennri umræðu um íslenskan landbúnað, að hann sé einhver einangrunarhyggjuatvinnugrein og gamaldags og kerfislægur, að staðreyndin er sú að við höfum á Íslandi eina frjálslyndustu landbúnaðarstefnu í okkar heimshluta. Það getum við rökstutt með margvíslegum hætti. En þetta er samt niðurstaðan.

Þess vegna skiptir sérstaklega miklu máli að við höfum augun á því sem skapar hið raunverulega rekstrarumhverfi fyrir íslenskan landbúnað og tökum þá samhliða þessum breytingum umræðuna um hvar við getum bætt það.

Það er t.d. hægt að nefna hina víðfrægu tollvernd, sem er önnur meginstoðin undir íslenskri landbúnaðarstefnu við hliðina á íslenskum búvörusamningum. Tollverndin, sem undirbyggð var með þátttöku í alþjóðasamningum upp úr árinu 1990, hefur í mjög langan tíma verið látin brenna upp á altari verðbólgunnar. Það er svo komið fyrir henni víða að hún er hætt að veita þá vörn sem henni var hugsað að gera. Ég hef sérstakar áhyggjur af henni í kjölfar þeirra breytinga sem þetta lagafrumvarp leiðir til á stöðu nautakjötsins hér á markaði. Ég beini því líka til hv. atvinnuveganefndar að ræða það sérstaklega, ef hún hefur tök á að greina þá stöðu.

Svo að við reynum að draga það saman sem ég held að verði fyrst og fremst verkefni þingsins í meðferð þessa frumvarps, held ég að það sé að ræða rekstrarstöðu landbúnaðarins. Og ég kalla eftir því. Ég held að það sé eina raunverulega svarið við þessum breytingum, við þurfum að viðurkenna hina raunverulegu rekstrarstöðu eða raunverulegt starfsumhverfi sem afurðastöðvar landbúnaðarins eru nú í eftir að við höfum gengið jafnlangt í þeim efnum og raun ber vitni að taka okkur á hendur samninga sem í daglegu tali eru kallaðir tollasamningar.

Mig óar satt að segja við þeim sofandahætti sem mér finnst ríkja hjá stjórnendum íslenskra afurðastöðva, sem eru jú íslenskir bændur. Að þeir séu ekki meira á tánum í því að sækja fram til hagræðingar og samstarfs í þeim geira en þeir eru. Mig óar við því, því veruleikinn er þessi, og hæstv. ráðherra rakti það ágætlega í sinni framsöguræðu, hversu hátt hlutfall búvörumarkaðarins er orðinn innflutt búvara, að þessi fyrirtæki eru komin í harða samkeppni við fyrirtæki á miklu stærri markaði. Við erum á hinum stóra markaði með íslenska landbúnaðarframleiðslu, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

Og hvort sem fyrirtækið heitir Sláturfélag Suðurlands eða Kjarnafæði eða Norðlenska eða Kaupfélag Skagfirðinga — jú, allt saman stór og burðug fyrirtæki og glæsileg og vel rekin hér heima á Íslandi — en í samhengi við hin stóru fyrirtæki sem þeim er ætlað að keppa við eru þau krækiber. Og eru nú krækiber reyndar ágæt. En styrkur þeirra hlýtur að felast í því að leita leiða til þess að þau treysti sig í sessi, annaðhvort með því að leita heimilda til að auka verkaskiptingu, sem ég tel alls ekki vera útilokað samkvæmt núgildandi lögum og þurfi enga sérstaka lagabreytingu til þess, eða með nánara samstarfi eða sameiningu.

Ég held að það sé eina raunhæfa svarið — til viðbótar því sem hæstv. ráðherra hefur nefnt í sinni aðgerðaáætlun, að taka ennú betur utan um íslensku búvöruframleiðsluna og lyfta henni upp, mæta íslenskum neytendum með góðum merkingum, sem neytendur kalla eftir. Við þurfum að taka miklu fastar á. Því ef það er eitthvað sem ég hef ekki óttast í tengslum við þetta mál er það hugur íslenskra neytenda. Það er sterkur og ríkur vilji íslenskra neytenda að fá að vita og þekkja uppruna matvörunnar sem þeir kaupa. Það er dónaskapur og það er ósiður að reyna að dylja það fyrir íslenskum neytendum hver sé uppruni vörunnar. Þarna liggur eitt meginsóknarfærið í framhaldi af þessum breytingum: Hagræðing og samstaða íslenskra afurðastöðva til að geta greitt bændum hærra verð, til þess að geta lækkað kostnað og til þess að geta upplýst neytendur um þá vöru sem þeir vilja kaupa.

Þess vegna eigum við að setja markið hátt í þessari vinnu sem fram undan er, láta ekki deigan síga og nýta þau tækifæri sem umræðan núna m.a. opnar fyrir okkur. Því ég tek eftir því að þegar birtar eru skoðanakannanir um viðhorf til þessa máls svarar meiri hlutinn að hann sé ekki ginnkeyptur fyrir því að slakað sé meira á innflutningi, á vörnum gagnvart innfluttri búvöru. Ég held að þarna séu ákveðin skilaboð sem við eigum að taka alvarlega.

En það sem ekki lá fyrir 2005 þegar íslensk stjórnvöld gengust undir þessa skilmála, að taka upp matvælalöggjöfina, og það sem hefur vaxið allar götur síðan, er umræðan um sýklalyfjaónæmi. Sú staða var ekki uppi árið 2005. En sú umræða vex hratt núna. Það mátti vel merkja á ágætri framsöguræðu hæstv. ráðherra að hann tekur þá umræðu vel. Ég fagna því sérstaklega sem hann sagði í sinni ræðu um samskipti sín við framkvæmdastjórnina, að þar sé skilningur á þessari stöðu og skilningur á ótrúlegum árangri okkar, sérstaklega íslenskra alifuglaframleiðenda, í baráttunni við kampýlóbakter.

Ég er ekkert svartsýnn á að það takist að vinna úr þessu máli með þeim hætti að það geti orðið til framfara.

Ég vil undir lok þessarar ræðu segja, virðulegi forseti, að ég hef í langan tíma ekki séð jafn málefnalega tekið utan um þá hagsmuni sem við erum flest í þessum sal tilbúin að ganga fram og verja, sem eru hagsmunir íslenskra sveita og íslensks landbúnaðar til framtíðar.