149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nú er það svo að þegar Finnar voru að ganga í Evrópusambandið var lögð rík áhersla á að finnskur landbúnaður væri stundaður við allt aðrar aðstæður en í Evrópusambandinu, veðurfarslegar og landfræðilegar aðstæður. Finnar héldu þessu til streitu. En það var lítill áhugi á þessu meðal Evrópusambandsins. Þá brugðu Finnar á það ráð að bjóða fulltrúum Evrópusambandsins, embættismannaklíkunni innan landbúnaðarins í Evrópusambandinu, í heimsókn til Finnlands. Þegar þeir komu, í marsmánuði, var allt á kafi í snjó. Þá áttuðu þeir sig á því að finnskur landbúnaður bjó við mikla sérstöðu.

Ég vil því spyrja hv. þingmann og velta því hér upp, fá hans hugleiðingar um það, hvort það hefði ekki verið eðlilegt að bjóða hingað fulltrúum Evrópusambandsins í tengslum við þetta mál til að kynna sér íslenskan landbúnað og þessa sérstöðu sem íslenskur landbúnaður býr við þegar kemur að lyfjanotkun í landbúnaði og hreinleika búfjárstofna.

Þekkir hv. þingmaður það hvort þessir aðilar hafi komið hingað til lands, heimsótt bændur og rætt við þá? Ég held að það sé nefnilega mjög mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu að menn kynni sér aðstæður. Ég er alveg sannfærður um að Evrópusambandið hefur sáralítið kynnt sér þessar aðstæður, annað en lesið einhver skjöl.