149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:37]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að þessu ágæta fólki sé boðið að koma hingað að kynna sér aðstæður. Þess vegna fannst mér það vel gert hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að fara til framkvæmdastjórnarinnar og tala máli okkar, tala fyrir þeim hagsmunum sem við viljum halda á lofti. Mér fannst það satt að segja vonum seinna gert.

Og rétt eins og við frágang þess þingmáls sem hefur verið kallað þriðji orkupakkinn finnst mér íslensk stjórnvöld núna loksins vera farin að fá sjálfstraust til þess að mæta til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og segja hvað henti fyrir íslenskar aðstæður.

En af því að hv. þingmaður gerði mér þann greiða, raunverulega, að ræða inngöngu Finnlands í Evrópusambandið, langar mig, virðulegur forseti, að deila reynslu sem ég varð fyrir í öðru starfi þegar við stóðum frammi fyrir aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Fyrsta ráð finnskra bænda til íslensku Bændasamtakanna var: Verið aldrei einir á fundi með Evrópusambandinu og gætið að því á hvaða formi þeir ganga frá svokölluðum undanþágum. Vegna þess að finnskir bændur töldu sig hafa gert einar 114 undanþágur frá meginreglum Evrópusambandsins og þær voru næstum allar af léttúð skotnar niður eins og flugur, því að það var í fyrsta lagi ekki rétt frá þeim gengið og þær höfðu heldur enga lagastoð í því regluverki sem Evrópusambandið starfaði eftir. Þess vegna var þeim sópað eins og dauðum flugum út af borðinu og ekkert stóð eftir, sem m.a. þýddi það, virðulegi forseti, að það sem menn töldu sig hafa fengið skilning á, sú sérstaða finnskra Sama að slátra hreindýrum við þær aðstæður sem þeir höfðu búið við um aldir, og þeir höfðu sérstaklega undirskrifað blað um að mætti, var léttvægt fundið seinna. Þeir þurftu síðan að saga hornin af hreindýrunum og flytja þau 500 km leið (Forseti hringir.) í sláturhús.

Þess vegna gef ég ekkert, virðulegi forseti, fyrir að það sé hægt með einhverju (Forseti hringir.) almennu dægurtali að sækja einhverjar sérstakar undanþágur. Við verðum að bera staðreyndir á borð og hafa sjálfstraust til að bera okkur eftir því. Það sjálfstraust hafa núna íslensk stjórnvöld loksins fundið á nýjan leik. (Gripið fram í: Ég nefndi staðreyndirnar.)