149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Veruleikinn er sá að við erum nú þegar komin með tíu ára frest í þessu máli. Við höfum ekki uppfyllt matvælalöggjöfina sem við samþykktum 2009 svo að það liggi fyrir, og þessir dómar liggja fyrir. Ég tel eðlilegt að við í atvinnuveganefnd förum yfir málin með viðkomandi ráðherrum sem hafa fjallað um þau og farið til Brussel til að fylgja þessum málum eftir og kanna möguleika á að verja okkar hlut í þessu máli.

Ég get ekki svarað fyrir það hvað mönnum hefur farið á milli í þeim efnum en ég hef þá trú að menn hafi reynt að halda uppi hagsmunum Íslands og horft svo framan í þann veruleika að við þyrftum að horfa til ýmissa annarra hluta eins og að styrkja varnir okkar með aðgerðaáætlun sem er sundurliðuð í frumvarpinu. Þar gerum við sömu kröfur til þeirrar framleiðslu, uppruna, rekjanleika, lyfjanotkunar og alls þess hreinleika, og við gerum til íslensks landbúnaðar. Ef við stillum upp öllum þessum vörnum get ég ímyndað mér að innflutningsaðilar, sem kannski bíða mjög spenntir eftir því að fá að flytja inn þessa framleiðslu að utan, muni reka sig á það háar girðingar að þeir komist ekki yfir þær.