149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:26]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu sem um margt var ljómandi góð. Ég get lýst mig sammála mörgu því sem hann færði þar fram. Ég vil sérstaklega draga fram í hans ræðu einstakan árangur sem íslensk alifuglarækt hefur náð, sem er nákvæmlega kjarninn í málinu og er ástæða þess að hæstv. landbúnaðarráðherra vill grípa til viðbótaraðgerða til að verja þessa stöðu.

Það sem ég saknaði úr ræðu hv. þingmanns var að hann reifaði á engan hátt hvaða aðrar leiðir væru færar. Ég spyr þingmanninn að því hvaða hugmyndir hann hafi um það hvernig Ísland eigi að bregðast við eftir að hafa fengið þennan dóm. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum það í þessari umræðu hvaða aðrar leiðir séu færar. Ef þingheimur gæti komið auga á það skal ég fyrstur manna taka undir það og móta þær leiðir ef þær eru raunhæfar og ekki með þeim afleiðingum sem hv. þingmaður rakti hér, og vitnaði í ágætar umsagnir.

Meginmálið er þetta, og ég hef lesið þessar ágætu umsagnir allar: Mér finnst lítið gefið fyrir það sem reynt er að gera í meðferð og frágangi þessa máls. Vísað er til hv. atvinnuveganefndar, og hv. þingmaður á sæti þar í dag, og ég spyr hvernig hann ætli þá að meðhöndla þær aðgerðir sem þar eru boðaðar. Vill hann hafna þeim öllum eða hvaða aðrar leiðir eru færar, hv. þingmaður?