149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:28]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er fjarri mér að halla orði á þær leiðir sem eru boðaðar í tólf liða aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra. Ég leyfði mér eingöngu að vísa til þess að það er endurtekið stef í þeim umsögnum sem hér liggja fyrir en það eru a.m.k. umtalsverðar áhyggjur hjá þeim samtökum sem hafa látið frá sér umsagnir um þetta mál af því að þessar aðgerðir gangi ekki nógu langt og að þær verði ekki komnar í framkvæmd á þeim skamma tíma sem er til stefnu.

Ég hafði tækifæri til þess hér fyrr í dag að inna hæstv. ráðherra sérstaklega eftir mikilvægum þætti í þessari aðgerðaáætlun sem er það að óheimilt verði að dreifa alifuglakjöti nema sýnt sé fram á að ekki hafi greinst kampýlóbakter. Ég fékk mjög upplýsandi svör frá hæstv. ráðherra og ég ítreka þakkir mínar til hans fyrir. Áhyggjur mínar af þessu atriði jukust a.m.k. ekki við þau svör sem hann veitti. En ef til vill er málið þannig vaxið að ekki verður fyrir það synjað, frú forseti, að pólitískar og diplómatískar lausnir eigi við þegar svo miklir hagsmunir eru undir sem raun ber vitni, þar sem er matvælaöryggi, vernd búfjárstofna og samkeppnisstaða innlendrar matvælaframleiðslu. Kannski hafa ekki að öllu leyti fengist fullnægjandi svör um það hversu hart var sótt fram af hálfu stjórnvalda á þeim vettvangi.