149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:30]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans svar og ég tók úr því svari þann punkt, og fagna honum sérstaklega, að hann tekur undir þær aðgerðir sem hæstv. landbúnaðarráðherra boðar í þingmálinu. Ég undirstrika það, rétt eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, að ég held að það sé nákvæmlega hlutverk atvinnuveganefndar og þeirra sem þar sitja að ræða þær aðgerðir og mögulega þétta þær ef þess er nokkur kostur.

Ég valdi mér ekki það hlutskipti í lífinu að þurfa að tala til stuðnings því að fella frystiskyldu úr lögum. Ég hef áður verið í öðru starfi og var stuðningsmaður þess að það ákvæði væri inni í lögum. En ég deili ekki við dómstólana. Okkar æðsti dómstóll hefur dæmt á þessa vegu. Mér eru það vonbrigði. Ég veit líka til þess að í málarekstri Íslands var þessari sérstöðu okkar haldið á lofti og viðkvæmri stöðu búfjárstofna. Það var lítið yfir gefið fyrir það í niðurstöðu EFTA-dómstólsins.

Eftir situr, virðulegur forseti, spurning til hv. þingmanns eftir hans ræðu: Hvaða aðrar leiðir eru færar en að bregðast við með þeim hætti sem boðað er í þessu frumvarpi?