149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:34]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp sem snýr að breytingum á innflutningi á búfjárafurðum. Ég vil byrja á því að þakka sérstaklega hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðu hans og málflutning sem ég tek undir, einkum það sem hann sagði í upphafi ræðunnar um búfjársjúkdóma og hversu viðkvæmur búfjárstofn okkar er. Við getum alveg farið aftur til þess þegar fjárkláði barst með innfluttu fé eða þegar danskur hrútur var fluttur inn til landsins fyrir 1900 en með honum fengum við riðuna sem við erum enn þá að takast á við.

Með frumvarpinu er hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins og einnig þeirri niðurstöðu sem íslenskir dómstólar hafa komist að, þ.e. að núverandi fyrirkomulag stríði gegn tilskipun 89/662/EBE þar sem bannað er að viðhafa sérstakar ráðstafanir eða prófanir á landamærum innan hins innri markaðar. Það er rétt að þá tilskipun innleiddum við árið 2009 en höfum ekki brugðist við með breytingum á löggjöf okkar í fyrrnefnda átt. Við höfum rembst eins og rjúpan við staurinn við að verja sérstöðu okkar en sú aðferðafræði sem við höfum viðhaft er ekki viðurkennd.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu, að frystiskyldan ver okkur ekki gegn smiti og sjúkdómum en gefur okkur svigrúm eða tíma til að bregðast við ef erfiðir sjúkdómar koma upp erlendis, skjóta upp kollinum, eins og kúariða og svínapest. Frystiskyldan hefur því skipt máli en hún verður ekki til staðar framvegis. Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að við ætlum að hætta þessum brotum, eins og það er nú skemmtilega orðað, hætta þessari óþekkt og gerast ábyrg. Allt í lagi, en hvernig verjum við sérstöðu okkar og hvernig verðum við ábyrg?

Innflutningur á hráu kjöti og sóttvarnir landsins snúast um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir. Þá er ég að tala um lýðheilsu og heilsu búfjárstofnanna okkar. Þeir hagsmunir eru miklu stærri en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni. Samningar og lög eru mannanna verk sem hægt er að breyta en ef sérstaða landsins tapast verður hún ekki auðveldlega endurheimt. Innflutningur á hráu kjöti og unnum kjötvörum hefur vaxið á undanförnum árum, sérstaklega síðustu þrjú ár. Nær allur innflutningur á kjötvörum er af úrbeinuðu kjöti. Ef við umreiknum það magn í kjöti á beini má sjá að hlutfall innflutts alifuglakjöts á síðasta ári var um 20%, í svínakjöti 27% og nautakjöti 22%. Innflutningur er því staðreynd og er orðinn umtalsverður.

Okkur ber skylda að halda uppi vörnum fyrir sérstöðu okkar sem felst í tiltölulega lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði og lágri tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í fólki. Sérstaða landsins byggir m.a. á hreinleika búfjárstofna okkar, sem okkur hefur tekist að halda í vegna legu landsins. Heimurinn allur þarf að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis. Sýnt hefur fram á ótrúlega mikla fylgni milli neyslu matvæla þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er mikil og tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í fólki. Þeir hagsmunir eru lífinu á jörðinni jafn dýrmætir og hreinleiki lofts og vatns.

Íslensk matvælaframleiðsla er ekki undanskilin. Við verðum að passa hana líka. Smit frá matvælum í búfé er staðreynd og þekkt dæmi um slíkt erlendis frá. Má þar nefna sjúkdóma eins og gin- og klaufaveiki, sem er kannski sú pest sem menn óttast mest og er mjög smitandi. Það hefur stundum verið gert lítið úr smitleiðum en þær eru viðurkenndar í gegnum matvæli. Við verðum því að vera viðbúin því að óheftur innflutningur á hráu kjöti verði að veruleika hér á landi — og hvað getum við gert?

Samhliða þessu frumvarpi hafa stjórnvöld kynnt aðgerðaáætlun sína sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þetta er allt mjög mikilvægt. Þetta eru þær leiðir sem við veljum að fara til að bregðast við þeim dómi. Allar mótvægisaðgerðir eru þýðingarmiklar og eiga fullan rétt á sér. Eigi aðgerðirnar hins vegar að skila árangri verðum við að hafa lengri tíma en nokkra mánuði til að innleiða þær. Sérstaklega er mikilvægt að það náist að fram fari ítarlegt, alþjóðlegt og viðurkennt áhættumat sem tekur á áhrifum breytinganna hér á landi.

Ég myndi því ætla að frestun á gildistöku laganna sé mikilvæg. Ég veit ekki hvað við erum að tala um í því sambandi en nokkrir mánuðir geta skipt máli til að koma mótvægisaðgerðum í fulla virkni, þó ekki væri nema einhverjum þeirra. Það skiptir máli að breytingar verða á innflutningstakmörkunum.

Mikilvægt er að finna flöt á því að styrkja þær mótvægisaðgerðir sem nefndar eru meðfram frumvarpinu. Aðgerðaáætlunin er í 15 liðum. Ég held að ég taki ekki eina fram fyrir aðra þar sem þær eru allar mjög mikilvægar; viðbótartrygging gagnvart kjúklinga- og kalkúnakjöti og viðbótartrygging vegna svína- og nautakjöts og að bannað verði að dreifa alifuglakjöti. Þetta skiptir gríðarlega miklu vegna þess að það setur innflytjendum skýrari skorður og tryggir að þeir reyni af fremsta megni að komast hjá því. Áhættumatsnefnd verður sett á fót. Ég held að við þurfum að fara í þetta ásamt öðrum aðgerðum áður en kemur að gildistöku þessara laga.

Þó að íslenskur landbúnaður standi vel í alþjóðlegum samanburði þurfa íslenskir bændur að laga sig að breyttum kröfum og reglugerðum, eins og þetta frumvarp birtir. Íslenskir búfjárstofnar eru að mestu lausir við notkun á sýklalyfjum og öðrum lyfjum. Þó hefur slíkt komið upp og við þurfum að taka okkur á í þeim efnum. Hreinir búfjárstofnar eru liður í því að tryggja matvælaöryggi landsins. Með hlýnandi loftslagi, hnattvæðingu og vaxandi innflutningi á kjöti er hætta á að smitsjúkdómar berist til landsins. Öflugar rannsóknir á sviði dýraheilbrigðis og dýrasjúkdóma eru forsenda þess að hægt sé að tryggja áfram örugga matvælaframleiðslu hér á landi, kannski meira nú en nokkru sinni áður.

Því skiptir miklu að við eflum allar rannsóknir í landbúnaði og í matvælaiðnaðinum. Það kemur til með að skila okkur betri þekkingu á því að takast á við vandamálið sem við erum að ræða í dag. Til að ná fram þeim markmiðum þarf að virkja sterka matvælastefnu. Þetta eru allt atriði sem við getum ráðist í. Sterk matvælastefna gerir okkur bæði virkari og býr til þekkingu sem við getum byggt á til að verjast og takast á við þetta vandamál. Hún þarf sérstaklega að endurspegla sérstöðu landsins, uppbyggingu matvælaframleiðslu hér til sjálfbærrar þróunar, tryggja gæði og síðast en ekki síst gæta hagsmuna neytenda. Um það snýst þetta allt. Við erum öll neytendur hér á landi.

Það er fleira sem hægt er að gera. Við þurfum að passa að gerðar verði sömu gæðakröfur á innflutt matvæli frá Evrópska efnahagssvæðinu og gerðar eru til íslenskrar matvælaframleiðslu, enda er markmiðið með EES-samningnum að tryggja sambærileg samkeppnisskilyrði. Við þurfum að taka undir að tryggt verði að lýðheilsa beri ekki skaða af innflutningi vegna sýktra matvæla, enda getur það ekki verið markmið með EES-samningnum, eins ágætur og hann er, að staðan versni hér á landi. Með slíkum aðgerðum lágmörkum við áhrif innflutnings á búfjárstofna og lýðheilsu hér á landi.

Þetta skiptir gríðarlega miklu og ég vil undirstrika að gildistaka laganna verði endurskoðuð með það fyrir augum að nægilegur tími gefist til að innleiða fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Atriði eins og að dreifing matvæla sem innihalda kampýlóbakter og salmonellu og fjölónæmar bakteríur verði óheimil verða að eiga við bæði innlenda og erlenda framleiðslu. Við þurfum líka að líta okkur nær í þeim efnum. Það skiptir mig máli og við getum gert það samhliða þessu.

Eins og ég sagði þarf að tryggja fjármagn til eftirlits og rannsókna. Nokkrir þingmenn komu inn á tryggingar áðan og við þurfum að huga að tryggingarsjóði, sem er nefndur í greinargerðinni og skiptir máli að við hnykkjum svolítið vel á því. Ég vil ítreka að við þurfum að fara strax í þessar aðgerðir, sem eru mjög góðar, og tryggja að þær verði virkar þegar frumvarpið tekur gildi. Sérstaklega vil ég undirstrika áhættumatið, sem skiptir máli að fari fram og taki til breytinganna hér á landi og þýðingu þeirra fyrir okkur á lýðheilsu og heilsu búfjár.