149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:52]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ tækifæri sem meðlimur í atvinnuveganefnd til að fylgja frumvarpinu áfram og ég hef aldrei verið orðlaus þar inni. Ég tel að ég verði áfram að vinna með þetta mál og ég mun örugglega setja eitthvert fingrafar á það. Þessi aðgerðaáætlun er komin fram og þær tillögur sem þar eru, og það felast líka sóknartækifæri í því fyrir íslenskan landbúnað.

Hv. þingmaður talaði um hvort ég myndi styðja frest í þrjú til fimm ár. Ég held að það sé nokkuð langur tími. Ég held að við yrðum búin að fara allt of marga hringi eftir þann tíma. Ég vil endurtaka að hæstv. ráðherra fór út til viðræðna og samtalið á sér enn stað. Þó að frumvarpið hafi verið lagt fram þá er það ekki komið í sinni endanlegu mynd sem við fáum að greiða atkvæði um hér. Ég get fullyrt að ég á eftir að ræða málið í nefndinni. Vonandi gefst okkur góður tími til að setja fingraför okkar á málið.