149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mig langar að grípa aðeins niður í umsögn Landssambands sauðfjárbænda við þetta frumvarp. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur farið yfir efni frumvarpsins og leggst alfarið gegn því að það verði samþykkt.

Það er skoðun samtakanna að taka verði EES-samninginn til endurskoðunar í ljósi þess að ekki sé hægt að beita ákvæði 13. gr. EES-samningsins sem forsendu fyrir núverandi fyrirkomulagi er varðar innflutning á hráu, ófrosnu kjöti.

[...]

Samtökin telja niðurstöðu EFTA-dómsins og dóms Hæstaréttar Íslands algjöran forsendubrest á skilyrðum fyrir samþykkt samningsins og hafna alfarið þeirri uppgjöf sem felst í frumvarpinu.

Íslendingar eiga gífurleg verðmæti sem felast í einstakri sjúkdómastöðu búfjár á Íslandi. Sú staðreynd og ekki síður mjög lítil og markviss notkun sýklalyfja í landbúnaði í áratugi gerir landbúnaðarframleiðslu á Íslandi einstaka þegar kemur að hreinleika afurða.

Þessi staða okkar er öfundsverð,“ segir í umsögninni, „hún er einstök og í raun furðulegt að við skulum gefast upp við að halda hér uppi eðlilegum vörnum landsins.“

Nú er það svo að hv. þingmaður er fyrrverandi formaður Landssambands sauðfjárbænda. Þá langar mig að spyrja hann hvort hann telji að hér sé um algjöra uppgjöf að ræða.

Hann sagði jafnframt að hann óttaðist ekkert. Er hann ósammála þessari umsögn Landssambands sauðfjárbænda?