149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þetta stutta svar. Svolítið athyglisvert. Svona í ljósi fyrri stöðu hans í þessari mikilvægu landbúnaðargrein.

Í umsögn Landssambands sauðfjárbænda um frumvarpið segir jafnframt:

„Einnig telja samtökin að það þurfi að ganga mun lengra í mótvægisaðgerðum en lagt hefur verið til.“

Þá vil ég enn og aftur spyrja hv. þingmann: Er hann sammála þessu? Telur hann að það þurfi að vera ítarlegri mótvægisaðgerðir? Kæmi hann til með að styðja, segjum, breytingartillögu þess efnis að það yrði lengri frestur og ítarlegri mótvægisaðgerðir?

Verður ekki að teljast að svar hv. þingmanns varðandi þessa góðu umsögn sé svolítið á skjön við það sem hann hefur sagt áður í þessum efnum og það að hann starfar nú í þessari mikilvægu grein?