149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka landbúnaðarráðherra fyrir gott frumvarp, frábæra framsögu. Ég tek líka undir frábæra ræðu hv. 1. þm. Norðvest., Gamla Halla eins og hann var kallaður, sem ég hélt alltaf að hefði verið kallaður Gamli Rauður en það er greinilega einhver misskilningur.

Ég hef fylgst með gerð þessa frumvarps nokkuð lengi. Ég leiddi verkefnahóp sem fylgdist með framgangi þessa máls, þessa frumvarps, og ég er afar ánægður með hvernig til tókst. Menn verða að átta sig á því að hér er verið að bregðast við ólögmætu ástandi. Þetta er ólögmætt ástand. Það verður að bregðast við því strax. Það fer ekkert eftir hentugleika eða á að skoða betur. Það er bara ekki í boði, því miður. Miðað við þann tíma sem við höfum haft, sem ráðherra hafði og ráðuneytið hafði, þá er komið frumvarp þar sem brugðist er ágætlega við þessu og ekki bara það heldur er frumvarpið til mikilla bóta fyrir matvælaöryggi í landinu, fyrir samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar og vernd búfjárstofna. Það er heilmikið í þessu frumvarpi og það er mjög gott.

Hér hafa nokkrir talað um að þetta sé svona og svona og menn hafa kannski mest talað um einhvers konar sagnfræði, að við hefðum átt að gera betur í gamla daga eða eitthvað svoleiðis. Það er ekkert um það að ræða. Og svo er alveg ljóst að frystiskyldan, sem var sett á með ólögmætum hætti á sínum tíma, verndar okkur ekki neitt gegn sýklaónæmi. Í þessu frumvarpi eru ákveðnar tryggingar gagnvart salmonellu. Frystingin hafði væntanlega einhver áhrif á kampýlóbakter. En ég segi auðvitað við fólk sem hefur miklar áhyggjur af þessu og heldur að allt sé að fara til andskotans út af þessu: Sleppið því að borða innflutt kjöt. Það er nóg í boði af frábærri íslenskri vöru.

Ég er algerlega sannfærður um að þessi breyting muni gefa íslenskum matvælaframleiðendum mikil sóknarfæri. Þróunin er sú og hefur verið lengi, gengur mjög hratt, að neytendur krefjast betri og öruggari vöru. Við skulum bara byrja á því sjálf hér heima, að kaupa þessa frábæru vöru þótt hún kunni að vera örlítið dýrari, því hún er miklu betri. Og ég er líka jafn sannfærður um að það sé stutt í það að erlendir neytendur átti sig á því að íslensk matvara er með því allra besta í heiminum.

Við getum ekki verið föst í sama gamla farinu. Ég er ekki að segja að það sé ekki mögulegt að bæta þetta frumvarp eða gera það betra. En hérna er verið að bregðast við þessu ástandi og þar að auki að bæta stöðu íslenskrar framleiðslu. Ég held að menn eigi almennt að fagna því með því að styðja frumvarpið þó að mönnum finnist það ekki fullkomið að öllu leyti, eða telji að það þurfi einhvern lengri tíma, sem ég er ekki viss um, enda er það ekki í boði.

Ég er sjálfur mikill stuðningsmaður innlendrar matvælaframleiðslu. Ég er mjög tilbúinn að leggja á mig ýmislegt til að efla samkeppnishæfni íslenskrar framleiðslu og auka matvælaöryggi o.s.frv. En ég vil fara að lögum. Og ég vil fara að þeim samningum sem við höfum gert enda feikimiklir hagsmunir í því að við förum eftir þessu.

Hvað sem okkur kann að finnast um dómana sem hafa gengið um lögmætið eða ólögmætið réttara sagt, við getum deilt um það, þá er þetta niðurstaðan og ég held að til lengri tíma sé hún til bóta fyrir íslenskt samfélag, til mikilla bóta fyrir íslenska matvælaframleiðslu og íslenskt samfélag. Þannig að við erum í tiltölulega góðum málum.

Ég heyri að ég hef náð aðeins að vekja einhverja Miðflokksmenn. En ég bið menn að hugsa út í þetta. Við getum ekki verið hér með neina skemmri skírn eða einhverjar blekkingar gagnvart þeim samningi sem við höfum undirritað og búið er að dæma um. Allt slíkt kemur bara í hausinn á okkur. Stóru hagsmunirnir eru þessir: Að við séum með trygga matvælaframleiðslu, samkeppnishæfa matvælaframleiðslu og eigum möguleika á að efla og auka samkeppnina hvað þetta varðar.