149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aftur ítreka þakkir mínar fyrir þessa hreinskiptni og líka raunverulega trú á því að við getum sett okkur þær reglur sem undirstrika heilnæmið og styðji áfram við íslenskan landbúnað, af því að við hv. þingmaður deilum því að í samkeppni erum við, held ég alveg örugglega, bæði sannfærð um að íslenskur landbúnaður mun verða yfirsterkari þeirri innfluttu vöru sem um ræðir. En það er auðvitað neytenda að velja. Við verðum að treysta þeim. Um leið er þetta frelsi og þessi opni hvati fyrir okkur til að gera betur um leið og við reynum að setja fram skýrar reglur sem uppfylla m.a. skýrt eftirlitshlutverk þannig að neytendur viti hvaðan varan kemur. Þar stöndum við Íslendingar og landbúnaðarframleiðslan mun framar.

Ég segi þetta og spurði hv. þingmann að þessum spurningum því að það er ákveðin bitur reynsla í gegnum atvinnuveganefnd að þegar þeir þingmenn stjórnarinnar sitja þar og fá tækifæri til að liðka fyrir, þá sé farið í þveröfuga átt. Ég vil benda m.a. á (Forseti hringir.) ostamálið, sérostamálið, þar sem tækifæri var til þess að opna, en það var lokað og neglt fyrir í leiðinni.