149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kom inn á það að hér hafi lög verið brotin og að við þurfum bregðast á viðeigandi hátt við því, þess vegna sé þetta frumvarp komið fram. En þetta mál snýr líka að einstökum landbúnaði okkar og þeirri sérstöðu sem við búum við. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ávallt í svo stóru máli sem þessu að beita okkur á hinum pólitíska vettvangi, þ.e. ræða við framkvæmdastjóra Evrópusambandsins um sérstöðu okkar og sýna þeim fram á þá hættu sem fylgir því að þurfa að innleiða þá skyldu sem felst í því að þetta frumvarp er komið fram.

Það má sem dæmi nefna að í landhelgisdeilunni við Breta lögðum við fram veigamikil gögn sem studdu málstað okkar, gögn eins og skýrslu Hafrannsóknastofnunar á þeim tíma um ofveiði. Rökin voru okkar megin og við náðum að lokum sigri gegn heimsveldi, eins og við þekkjum. Það sama á við í þessu máli að mínu dæmi. Sérstaða okkar er ótvíræð. Íslenskir búfjárstofnar hafa verið einangraðir um aldir og aldrei komist í snertingu við smitefni margra búfjárstofna sem eru landlægir í Evrópu og víðar, þannig að rökin eru okkar megin.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki eðlilegt að við beitum öllum rökum okkar áður en við gefumst upp, eins og sagt er? Þá vil ég nefna sérstaklega það sem kemur fram í 114. gr. Lissabon-sáttmálans þar sem er heimild til þess fyrir ríki innan sambandsins til að vera með sérreglur, ef svo ber undir, (Forseti hringir.) sem sagt vegna einhvers vanda sem ríkin glíma við eða vegna sérstöðu þeirra. Þetta gildir innan Evrópusambandsins. Þetta gildir ekki (Forseti hringir.) innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES-samningsins. Þá spyr ég hv. þingmann: Telur hann ekki að þetta séu rök sem við eigum að beita í umræðunni og benda á að ættu einnig að eiga við um EES-ríkin?

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til hv. þingmanna að virða tímamörk.)