149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður, við erum búnir að beita þeim rökum. Þeim rökum var öllum beitt í dómsmálinu. Það gleymist stundum í umræðunni.

Við erum alltaf að reyna að gæta hagsmuna okkar. Það er gert í þessu máli líka. Rætt er við fulltrúa Evrópusambandsins o.s.frv. Farið er í ítarlegar rökræður. Öll rökin komu fram í dómsmálinu. Þetta varð niðurstaðan. Þess vegna erum við að bregðast við ólögmætu ástandi.

Hvað sem okkur kann að finnast, hvernig sem við viljum túlka 12. og 13. gr., þá er þetta svona. Ég er bara að segja, hv. þingmaður, að ég tel niðurstöðuna og þetta frumvarp jafnvel til bóta — ekkert jafnvel, ég held það sé til bóta til lengri tíma fyrir íslenska matvælaframleiðslu. Ég trúi því. En það er ekki þar með sagt að ekki kunni að verða erfiðleikar einhvers staðar á leiðinni. En ég mun þá vilja skoða þau úrræði sem hægt er að nýta eða beita á hverjum tíma til að tryggja örugga matvælaframleiðslu, eins og ég hef sagt áður, á heilnæmri vöru, hér eftir sem hingað til.