149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[18:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir liggur niðurstaða yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis hvað varðar vernd búfjárstofna. Hún er eftirfarandi: Afnám frystiskyldu hefur lítil sem engin áhrif á veiru- og bakteríusjúkdóma í dýrum en getur haft áhrif á sníkjudýrasmit. Löglega framleitt kjöt innan EES og viðbrögð EES-landa við alvarlegum dýrasjúkdómum, m.a. með skynditilkynningarkerfi milli landa, ætti að fyrirbyggja að afurðir sem innihaldið geta smitefni dýrasjúkdóma berist hingað til lands. Því má telja að afnám frystiskyldu muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og að mótvægisaðgerðir muni minnka áhættuna. Farið hefur fram eitthvert mat á því.

Það er auðvitað talsverð áhætta að vera á lífi, almennt. En hér er auðvitað búið að tryggja það (Gripið fram í: Hvað?) eins og hægt er í þessu, held ég. Einhver seinkun eða einhver skoðun á þessu mun örugglega ekki breyta neinu, því miður. En ég er samt þannig maður að ég vil auðvitað tryggja öryggi eins og hægt er.

Það er búið að fara nokkuð vel yfir þetta, líka hvernig við getum sjálf tryggt okkur. Og samgöngur milli landa og allt sem er að gerast — það getur auðvitað eitthvað gerst. En ég held að við séum undir það búin og getum brugðist við því, þannig að ég hef ekki áhyggjur af því að afnám frystiskyldunnar muni einhverju breyta í þessu. Það er bara það sem ég er að segja.