149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég staldra aðeins við þessar fullyrðingar Miðflokksins, um að vegið sé að fullveldi þjóðarinnar, og spyr hv. þingmann: Er það ekki einmitt fullvalda þjóð sem getur samið um gagnkvæm viðskipti, frjálst flæði tiltekinnar vöru milli landa eins og við höfum undirgengist í þessu tilviki? Hvernig í ósköpunum fær sú fullyrðing staðist að stjórnvöld séu með einhverjum hætti, af því að þau virða gagnkvæma samninga sem gerðir hafa verið, að fyrirgera fullveldi okkar? Ég sé ekki hvernig það fær staðist og ég verð að segja að mér finnst þetta hljóma eins og óttalegt lýðskrum.

Það má geta þess, af því að um gagnkvæm viðskipti með matvælaafurðir er að ræða, að við höfum miklu meiri hagsmuni af útflutningi til Evrópusambandsins en innflutningi þaðan. Vert er að hafa í huga að sjávarafurðir eru undir sömu matvælalöggjöf og landbúnaðarafurðir. Gæti ekki yfirlýsing okkar um að við treystum ekki matvælaeftirliti Evrópusambandsins sem við störfum eftir falið í sér hættu á því að við fengjum gagnkvæma yfirlýsingu á okkur, að traust væri ekki borið til eftirlits okkar með sjávarafurðum sem fluttar eru út til landa í Evrópusambandinu? Ég spyr bara: Eru þingmenn flokks hv. þingmanns tilbúnir að fara í veðmál með útflutningshagsmuni sjávarútvegs inn á Evrópumarkað?