149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á fullveldishlutann sem ég rétt tæpti á í ræðu minni, ég ætlaði að taka hann sérstaklega fyrir í seinni ræðu. Ég held að það sé alveg óhætt að segja ef maður skoðar gögn málsins, hver þróun mála hefur verið, ef við miðum við tímamarkið 2004, að það hafi ekki verið í huga þeirra sem sátu við samningaborðið að mál enduðu með þeim hætti sem nú stefnir í. Það að setja þetta í það samhengi að menn hafi ætlað sér að semja sig í þessa stöðu er í sjálfu sér alveg fráleitt og ég geri svo sem lítið með það. Ég gef mér að hv. þm. Þorsteinn Víglundsson átti sig á að svo var ekki. Það sýna öll gögn málsins og þær þreifingar sem hafa átt sér stað í ein 15 ár, samningaviðræður og síðan dómsmál sem endar með þeirri niðurstöðu sem menn telja sig vera að bregðast við hér í dag.

Nú hvað það varðar að við séum tilbúin til að spila happdrætti með útflutningshagsmuni þjóðarinnar á móti þessu þá vísa ég þeirri athugasemd á bug. Það hlýtur að koma til skoðunar hvernig raunverulega er haldið á málum á hvorum enda fyrir sig. Ég veit ekki annað en að allt sem snýr að utanumhaldi útflutnings, ég gef mér að þingmaðurinn hafi verið að tala sérstaklega um sjávarútveginn, sé í mjög góðum farvegi, sérstaklega góðum.