149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:25]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég er að vísa til þess að í alþjóðaviðskiptum er gjarnan horft til gagnkvæmni. Ég er ekki að draga í efa, og þykist þekkja það ágætlega, að eftirlit með sjávarafurðum er hér með miklum ágætum, eftirlit með heilnæmi þeirrar vöru í útflutningi. Ég bið fyrir mér ef Evrópusambandið færi að draga í efa matvælaeftirlit með sama hætti og við erum að gera með þeim yfirlýsingum sem hér koma fram varðandi innflutt kjöt sem við höfum skuldbundið okkur til að flytja inn með ákveðnum skilmálum.

Það er sú gagnkvæmni sem ég er að vísa til og er reyndar fjallað aðeins um í greinargerð með frumvarpinu, hvað gæti gerst, þótt ólíklegt sé talið, ef við yrðum flokkuð sem þriðja ríki þegar kæmi að flutningi matvæla á milli Evrópusambandsins og okkar. Við höfum ítrekað verið dæmd brotleg í þessu máli. Hér er verið að leiðrétta eða lagfæra það sem við höfum verið dæmd brotleg fyrir. Að sjálfsögðu eigum við að gæta okkar hagsmuna og heilnæmis þeirra vara sem við erum að flytja inn með öllum þeim ráðum sem við lagalega getum notað. Við eigum að láta af tilburðum til að brjóta vísvitandi þær reglur sem við höfum skuldbundið okkur til að starfa eftir. Það snýr að trúverðugleika í alþjóðaviðskiptum til lengri tíma litið og það á ekkert að vera að gambla með slíka hluti í þjóðernispopúlismi eins og mér finnst þingmenn Miðflokksins gera.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni: Við erum með einstaklega mikla gæðavöru hér heima þegar kemur að innlendum landbúnaðarafurðum, heilnæma og góða vöru. Mér finnst málflutningur þingmanna hins vegar bera það með sér að hann hafi enga trú á samkeppnisstöðu þessarar góðu vöru í samkeppni við innflutning.