149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[19:42]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um matvæli, lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvörum, frumvarp frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Lögin eru nr. 25/1993.

Eiginlega er fyrsta spurningin sem mig langar að fá svar við og maður veltir fyrir sér: Hvar erum við stödd? Erum við komin í Evrópusambandið? Erum við komin þangað án þess hafa tekið eftir því? (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) Er það ekki bara eiginlega orðið þannig að í gegnum Evrópska efnahagssvæðið, samninginn okkar, erum við einfaldlega að undirgangast alls konar orkupakka? Í dag voru fjögur mál sem voru tilskipanir frá EES og við vorum að stimpla. Ætli það séu ekki jafn mörg mál á hverju ári þar sem Alþingi Íslendinga er stimpilpúði fyrir EES-gerðir sem okkur eru færðar eins og bara hin almenna löggjöf sem við byggjum á sjálf? Hvar er okkar fullveldi? Hvernig förum við með það?

En nú skulum við segja annað. Við tölum hér um innflutning á ferskum afurðum, fersku kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum. Mig langar í beinu framhaldi af því að koma með pínulitla sögu, vegna þess að í raun og veru hef ég ekkert á móti því að við séum í góðum samskiptum við önnur lönd. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið veitti okkur fullan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins. Hann hefur í rauninni verið alger grundvallarsamningur hvað lýtur að útflutningi á okkar vörum, til að koma þeim greiðlega á markað.

Það er ekki þar með sagt að við hefðum ekki getað fengið að koma þeim á markað einhvers staðar annars staðar, en þetta var alla vega það sem við völdum á þessum tíma og útkoman er þessi. Við erum hér með stimpilinn á lofti alla daga í þinginu, meira og minna, til að stimpla gerðir í gegnum þennan Evrópska efnahagssvæðissamning.

En þetta litla söguinnlegg sem mér finnst ég þurfa að koma með núna, þar sem mínar áhyggjur snúa aðallega að þeirri þróun sem er að verða í heiminum í dag varðandi sýklalyfjaónæmi, er að uppgötvun sýklalyfja var í upphafi 20. aldar talin eitt merkasta afrek vísindalegrar læknisfræði.

Með uppgötvun Alexanders Flemings á pensilíni árið 1928 og myndun og framleiðslu annarra sýklalyfja næstu áratugina þar á eftir, kviknaði von um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af hættulegustu sjúkdómum heimsins. Hins vegar leið ekki langur tími frá því að notkun sýklalyfja hófst þar til stofnar ónæmra baktería komu fram. Nú er svo komið að sumar tegundir baktería eru ónæmar fyrir nánast öllum gerðum sýklalyfja.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur skilgreint sýklalyfjaónæmi sem eina af stærstu heilbrigðisógnum heimsins. Aukið ónæmi fyrir sýklalyfjum verður vandamál við meðferð sýkinga og hefur þar af leiðandi slæmar afleiðingar fyrir heilsu manna og veldur auknum kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins áætlar að í Evrópu einni komi upp u.þ.b. 400.000 sýkingar á ári hverju af völdum ónæmra sýkla, sem leiði til um 33.000 dauðsfalla á ári. Með auknum ferðalögum og viðskiptum með matvæli og dýraafurðir heimshornanna á milli opnast leiðir fyrir sýklaónæmar bakteríur sem aldrei fyrr.

Mig langar að nefna að ég hafði samband við og hef verið að fylgjast mjög vel með prófessor, við eigum góðan prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands. Hann er líka yfirlæknir við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Nafn hans er Karl G. Kristinsson. Hann hefur verið hvað ötulastur við að benda á óafturkræfan alvarleika þess að við bjóðum hættunni heim hvað varðar þetta útbreidda sýklalyfjaónæmi.

Núna erum við að fara að breyta þessari reglugerð. Það hefur fallið dómur, ekki einn, ekki tveir, heldur þrír — héraðsdómur, Hæstiréttur, EFTA-dómstóllinn. Við höfum verið að brjóta gegn lögbundnum skyldum okkar, gegn samningnum. Auðvitað skal halda samninga. Fyrst við erum búin að undirgangast þá á annað borð verðum við að halda þá. Það sem mér finnst kannski jákvætt í því sem við erum að tala um hér og nú í dag, þetta frumvarp, er að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sagt að það muni virkilega vera lagt í það að reyna að rannsaka sem best og gerst þær afurðir sem við flytjum inn.

Ég veit ekki alveg hvernig á að fara að því. Ég átta mig ekki alveg á því, vegna þess að þessi ágæti maður sem ég ætla að fá að vísa í hérna, Karl G. Kristinsson, segir að það taki í raun og veru ansi langan tíma að finna þetta út. Fyrir utan það má til gamans geta þess að hann tjáði mér að samstarfsaðili hans á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hefði verið að kaupa sér frosinn kjúkling á dögunum, ekki ferskan, takið eftir, heldur frosinn innfluttan kjúkling frá Danmörku, sem voru nú ekki nein vandræði fyrir okkur að flytja inn. En upprunalandið var nú samt sem áður Tæland. Það stóð í smáa letrinu fyrir neðan.

Maður spyr sig. Við tölum hér um að þetta verði hagsmunamál fyrir neytendur. Við verðum komin með samkeppni. Við verðum með kjöt og afurðir sem verða hér mun ódýrari en það sem almennt gengur og gerist á markaði. Flestir hér inni segja: Auðvitað munum við bara að velja íslenskt. En hér er samkeppnin komin og hver getur bara valið fyrir sig.

Ég segi: Hverjir skyldu það nú vera sem munu alveg örugglega velja ódýrustu vöruna? Það eru þeir sem kaupa núðlupakkann áfram á 25 kr. fyrir börnin sín af því þeir að ná ekki endum saman um hver mánaðamót og kaupa innflutta danska kjúklinga þar sem upprunalandið er sennilega Tæland.

Hvað erum við að gera til að tryggja það sem kemur hér fram, að upprunaskráningin sé trygg? Að við fáum í rauninni ekki vöruna einhvern veginn bakdyramegin þar sem upprunalandið er allt annað en það sem lögboðið á að vera og við ætlum að fylgja hér eftir?

Mig langar aðeins að benda á ágæta grein, með leyfi forseta, eftir Karl G. Kristinsson, sem ber heitið „Enginn veit hvað átt hefur fyrir fyrr en misst hefur“:

„Íslendingar njóta þess að vera með lægsta hlutfall sýklalyfjaónæmis í Evrópu og hafa þess vegna ekki kynnst því hversu alvarlegar afleiðingar sýklalyfjaónæmis geta verið.“

Það kom fram hinn 5. nóvember sl., með leyfi forseta, í grein í The Lancet Infectious Diseases um sjúkdómsbyrði af völdum helstu sýklaónæmu bakteríanna í Evrópu að niðurstöðurnar sýndu árið 2015 — hugsið ykkur — að það mætti kenna sýklalyfjaónæmi um 33.110 dauðsföll. 874.541 glatað, gott æviár. Þetta samsvarar 6,44 dauðsföllum og 170 glötuðum, góðum æviárum að jafnaði á 100.000 íbúa í Evrópusambandinu, á EES-svæðinu.

Ísland hins vegar kemur langbest út úr þessum samanburði, eða með 0,3 dauðsföll, 5,2 glötuð æviár á 100.000 íbúa.

Þannig að ég segi, virðulegi forseti: Það má alltaf gera betur. Ég veit að við verðum að standa við skuldbindingar okkar og allt það, þannig að það er ekki um auðugan garð að gresja hvað það varðar. En það er samt dapurt að teljast hafa fullveldi en í raun og veru horfa upp á að við höfum það ekki neitt.

Og rökstuðningurinn fyrir því að við segjum: Nei, hingað og ekki lengra — hver var hann aftur? Yrðum við skömmuð og rekin út af innri markaðnum? Kannski, ég veit það ekki. Ég leyfi mér að efast um það. Ég held að við séum ekki það risastór og merkileg í því. En yrðum við rekin út af innri markaðnum?

Hér grundvallast þetta aðallega á því að við tryggjum eins og bestur kostur er, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í rauninni sagt, að þegar kemur að því að flytja inn þessar vörur reynum við eins og kostur er að hafa það hafið yfir allan vafa að við berjumst með oddi og egg gegn því að þetta komi til með að vera hér í eins miklum mæli, þetta sýklalyfjaónæmi, og það er í rauninni úti um alla Evrópu.

En maður spyr sig þá líka: Hvers vegna skyldi það ekki alveg eins vera hér? Hvað erum við svona merkileg? Kannski bítur ekkert á Íslendinga? Er það þar sem gamla, góða þjóðarstoltið stendur upp úr, að það bítur bara ekkert á okkur þótt fólk sé að hrynja út af þessum hryllingi allt í kringum okkur? Nei, það mun sennilega bara ekkert bíta á okkur.

En hvað um það. Íslenskir bændur, sérstaklega sauðfjárbændur, hafa nú ekki riðið feitum hesti hvað varðar afkomu. Við höfum afskaplega lítið gert til þess að halda utan um þá atvinnugrein. Og með tilkomu þessa nýja innflutnings á hráu kjöti mun hún sannarlega ekki batna.

Þannig að ég skora á stjórnvöld í kjölfarið. Við verðum náttúrlega að vernda íslenskar afurðir betur og vera með ákveðnar forvarnir gegn því að við horfum hér á eftir sauðfénu, okkar ferska lambakjöti, bara út um gluggann því að allir gefist upp á því að rækta það. Ég hefði frekar getað ímyndað mér að við mundum geta byggt upp það öfluga matvælaframleiðslu að við yrðum bara sjálfbær, þyrftum ekki endilega að treysta á einhverja aðra. Við höfum alla burði til að rækta nánast hvaðeina. Okkar græna frábæra orka sem á núna sennilega á að fara að selja út um hvippinn og hvappinn, inn á raforkumarkað Evrópu, eins og lög gera væntanlega ráð fyrir. Við gætum t.d. komið til móts við grænmetisbændur. Við getum niðurgreitt orkuna. Við getum verið með risagróðurhús. Við getum verið sjálfbær. Við getum selt út heilbrigðustu og hreinustu afurðina. Við getum verið stolt af því að vera með alvöruafurðir sem er ekki haldin öllum þessum bakteríum og hroða.

Til gamans ætla ég að bæta því við í lokin að mér var sagt frá Íslendingum sem hafa komið inn á Landspítala – háskólasjúkrahús frá Evrópulöndum og t.d. verið að borða dásamlegu steikurnar á Spáni sem ég hef nú sjálf borðað, mjúkar og safaríkar og svo sannarlega ekkert að þeim og Spánverjar bara allir sprelllifandi og allt það. Ég veit náttúrlega ekkert hversu margir hafa hrokkið upp af vegna þess að þeir hafa einmitt þurft að ganga í gegnum kampýlóbakter og allar þessar sýkingar. En þessi ágæti prófessor sagði mér að þegar betur væri að gáð mældumst við sennilega öll með þessar bakteríur í okkur eftir að hafa neytt þessara afurða annars staðar. Það kom mér svolítið á óvart.

Ég var reyndar að spjalla við hann í dag um þessi mál vegna þess að mig langaði að setja mig pínulítið inn í málin af því að mér finnst hann hafa gengið það rösklega fram í að benda okkur á hve ástandið gæti hugsanlega orðið alvarlegt og óafturkræft.

Við verðum bara að treysta því að fyrst við ætlum að vera löghlýðin og standa við skuldbindingar okkar og þá samninga sem við höfum undirgengist, að eftirlitið okkar verði öflugt. Ég ætla að endurtaka: Að a.m.k. gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að reyna að sporna við þessari óheillaþróun sem hefur orðið úti um alla Evrópu.

Og það sem meira er og kemur hérna fram er að það er það alvarlegt að það veldur jafnmiklu álagi á heilbrigðiskerfi í Evrópu og heilsu fólks og inflúensa, berklar og HIV samanlagt. Þetta eru staðreyndir. Hugsið ykkur.

Þannig að ég segi bara, virðulegi forseti: Það er eins gott að stíga varlega til jarðar.