149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir allar hætturnar sem við neytendur búum við. Þetta eru allt saman ákveðnar hættur. Það er hætta þegar koma hér ferðamenn. Það er hætta þegar flutt eru inn matvæli. Það er hætta þegar flutt er inn grænmeti. Það er hætta þegar flutt eru inn reiðtygi. Það er allt satt og rétt. En hvað eigum við að gera með þær staðreyndir sem fyrir liggja, þ.e. að við verðum að komast úr þessu ólögmæta ástandi? Er það ekki alveg rétt? Og er ekki líka í þessu frumvarpi verið að bæta öryggi varðandi matvælaframleiðslu með ýmsum hætti? Erum við ekki jafnvel að gera ástandið skárra en það er nú þegar? Þetta eru lykilatriði í mínum huga.

Ég er mjög hlynntur íslenskri matvælaframleiðslu og mér fyndist mjög bagalegt ef þetta hefði slæm áhrif á samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu. Ég hef að vísu ekki trú á að það hafi það, en ég er ekki sá maður sem myndi vilja láta hana fara lönd og leið í samkeppni við niðurgreiddan landbúnað í útlöndum. Ég er ekki þar og hef aldrei verið. Það er vísu önnur umræða hvernig menn bregðast við því.

Það sem er rétt er að hér er frumvarp þar sem reynt er að bregðast við ýmsum hættum sem fylgja innflutningi á matvælum og kjöti og öðru. Við erum að bregðast við því. Getum við eitthvað annað gert? Getum við í þessu ólögmæta ástandi farið að bíða eftir einhverjum hundi? Nei, við getum það ekki. Hvaða önnur viðbrögð getum við sýnt heldur en að leggja fram þetta ágæta frumvarp?