149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:17]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er búið að ná tryggingu varðandi salmonellu. Hér er verið að auka eftirlitið vegna kampýlóbakters, bæði fyrir innlent kjöt og innflutt kjöt. Það er verið að gera ýmislegt. Það liggur alveg fyrir. Ef menn telja sig geta gert betur, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, þá leggja menn bara til einhverjar tillögur í meðferð málsins fyrir þinginu og gera kannski gott frumvarp enn betra. Það er hugsanlegt, ég skal ekki útiloka það.

Hv. þingmaður spurði líka um þennan verkefnahóp sem ég leiddi og velti því fyrir sér hvað hann var að gera, hann skilaði ekki sérstakri niðurstöðu. Þessi hópur átti auðvitað fundi með ráðuneytisfólki og ráðherra. Í þessum hópi voru fulltrúar hagsmunaaðila, bænda, frá Samtökum atvinnulífsins og menn gátu fylgst með því hvað væri verið að gera, koma með ábendingar um hvað menn ættu að reyna í samtölum við Evrópusambandið o.s.frv. Að því leytinu var þessi hópur innviklaður í málið þótt hann hafi ekki haft formlegt hlutverk og ætti ekki að skila sérstakri niðurstöðu, svo það sé upplýst.

Ég vil að lokum taka undir með hv. þingmanni. Ég hef auðvitað áhyggjur. Ég hef áhyggjur af velferð. Ég hef almennt áhyggjur af heilnæmi vöru. Ég vil gera allt til þess að hægt sé að bæta það ástand. Ég veit að það verður aldrei fullkomið, ekki á meðan við leyfum för fólks á milli landa og vörum milli landa. En það að tryggja öryggi eins vel og hægt er miðað við það þá samninga sem við höfum skuldbundið okkur til þess að efna og fylgja (Forseti hringir.) tel ég mjög mikilvægt. Ég vildi bara koma því að, hv. þingmaður.