149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður vill fá að vita hvað við Miðflokksmenn getum gert ef við fáum til þess afl og umboð þá þurfum við bara að komast í ríkisstjórn og þá myndi hann komast að því fullkeyptu hvað við erum færir um að gera ef við fáum til þess tækifæri. Þess verður vonandi ekki langt að bíða.

Ég ber mikla virðingu fyrir því að þessi óformlegi hópur hafi fundað með einhverjum fulltrúum heildsalahópsins og Bændasamtakanna án þess að skila niðurstöðu. En ég segi aftur þrátt fyrir þessi orð þingmannsins: Við lestur þessarar greinargerðar þá fæ ég ekki séð, alla vega ekki þannig að ég sé sjálfur óttalaus og öruggur, að hér hafi allt verið reynt sem hægt er að gera miðað við þá samninga sem við höfum undirgengist, eins og hv. þingmaður orðaði það. Ég hef þá trú að við hefðum átt og höfum átt og ættum núna, sérstaklega á meðan þetta frumvarp er hér til meðferðar, að sækja enn á Evrópusambandið til að fá það fram að sérstaða okkar sé slík að við eigum aukaatriði til þess að skima fyrir ýmsum sjúkdómum.

Við skulum ekki gleyma því, hv. þingmaður, að við etjum hér kappi við Evrópusamband sem áratugum saman beitti Íslendinga tæknilegum hindrunum í því að flytja út landbúnaðarafurðir inn í Evrópusambandið. Það var alls konar smásmygli og nýjar reglur á hverjum degi til að koma í veg fyrir að við Íslendingar gætum flutt út landbúnaðarafurðir til Evrópusambandsins. Ég sé ekki neitt því til fyrirstöðu að við reynum að herja á þetta sama samband til þess að vernda bæði fólk og fénað á Íslandi.