149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyni því ekki að ég varð fyrir vonbrigðum með ræðu hv. þingmanns. Hann kemur upp í pontu Alþingis og kallar eftir ábyrgri umræðu, vopnaður límmiðum sem á stendur: „lýðskrum“, „hræðslupólitík“, „þjóðernispopúlismi“ og „einangrunarsinnar“. Hvers konar orðræða er þetta? Er þetta ábyrga umræðan sem hv. þingmaður var sjálfur að kalla eftir? Ég varð ekki var við ábyrgðina. Þannig að ég auglýsi eftir henni.

Það var líka talað um að hér væru menn skíthræddir við gæði framleiðslu íslensks landbúnaðar og svo náttúrlega var grænmetissöngurinn sunginn einu sinni enn. Það er svo þægilegt að hafa bændur sem framleiða gúrkur og tómata og paprikur uppi á hillu og það verður engin þróun í þeirri grein, fyrir utan svolítið af salati og svolítið af kryddjurtum. Þetta er náttúrlega rosalega þægilegt fyrir þá sem stjórna markaðnum, ég neita því ekki. En þetta kemur neytendum ekki til góða og ekki framleiðendunum.

Þannig að ég spyr nú hv. þingmann í fyrsta lagi um þessa ábyrgu umræðu sem hann vildi að aðrir stunduðu, hvort hann ætli sér að ástunda hana sjálfur með einhverjum hætti, og hvað honum finnist í raun og veru um þetta mál hér, sem ég t.d. í mínu máli áðan lagði upp með að væri illa undirbúið — og ég fer ekkert ofan af því, þetta er eins og menn hafi í dauðans ofboði á síðustu stundu ætlað að hræra einhverju saman til að redda sér fyrir horn. Og víst er það rétt að það er búið að dæma okkur í þessu máli. Það er enginn að efast um að það. Það er enginn að kveinka sér út af fyrir sig undan því.

En ég spyr hv. þingmann: Er hann þess fullviss að málið eins og það er hér búið dugi okkur til þess að ná þeim markmiðum sem við viljum, þ.e. að hér verði tryggðar vörur til neytenda, hagkvæmar og öruggar, og það verði ekki til þess að íslenskur landbúnaður, svo viðkvæmur sem hann er — og þá er ég aðallega að tala um búsmalann — verði fyrir tjóni þar af?