149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:41]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekkert nýtt að málflutningur Bændasamtakanna í þessum innflutningsmálum hefur blandast mjög umræðunni um matvælaöryggi og tæknilegar viðskiptahindranir. Ég kallaði þær umsagnir hins vegar ekki lýðskrum. Ég var að vísa til þeirrar umræðu sem ég hlustaði á í þessum sal. Ég stend fyllilega við þær. Þetta er lýðskrum. Verið er að ala á ótta að óþörfu. Verið er að — ja, ég mundi segja fara alla vega mjög frjálslega með staðreyndir varðandi þá hættu sem að steðjar. Og hér er vísað í rannsóknir, staðhæfingar vísindamanna á vegum ráðuneytisins um það hversu öruggt þetta sé í raun. Það er ágætt að hafa það í huga í öllum þessum málflutningi um þá stórkostlegu vá sem að okkur á að steðja sem þjóð. Mér þykir reyndar alltaf áhugavert að velta fyrir mér á móti: Af hverju erum við ekki með standandi aðvörun til Íslendinga um að ferðast ekki til Evrópu úr því að þetta eru svona hættuleg matvæli sem þarna eru framleidd?

En hér er auðvitað verið að horfa í að gætt sé varúðar. Hér er verið að efla eftirlitið. Við byggjum á sambærilegu eftirliti, sömu matvælalöggjöf og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Í því felst engin hætta að mati þessara sömu sérfræðinga. Það gleymist alltaf að nefna í þessu samhengi, eins og varðandi fjölónæmu bakteríurnar, að mesta váin stafar af öðru en innflutningi á matvælum, þ.e. okkar eigin sýklalyfjanotkun og ferðamönnum sem koma hingað til landsins.