149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Efnislega verður umræðan auðvitað takmörkuð við 1. umr. um þetta mál en ég held, sem öllum má vera ljóst, nema mögulega hv. þm. Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar, sem talaði áðan á annan hátt en þingmenn hafa almennt gert í dag, að meginlínan sem megi lesa út úr því sem sagt hefur verið í dag sé að menn fari eins varlega og þeim framast er unnt.

Afstaða almennings til þessara mála, sem kemur m.a. fram í könnun sem Gallup gerði í mars, er sú að rúm 60% landsmanna eru andvíg því að heimilaður verði innflutningur á ófrosnu hráu kjöti. Sá meiri hluti þjóðarinnar er ekkert þeirrar skoðunar bara af því bara. Menn hafa áhyggjur af því. Þeir telja að frumvarpið sem liggur fyrir gangi ekki eins langt og mögulegt sé að komast í því að verja einstaka stöðu okkar hvað hreinleika og heilnæmi innlends landbúnaðar varðar. Það er skylda okkar að ganga eins langt í þeim efnum og nokkur kostur er.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar — þótt mér þætti hún því miður vond að mjög mörgu leyti og yfirlætið sem þar kom fram þeirrar gerðar að það er tilefni til sérstakrar skoðunar eitt og sér — var krafan að menn stæðu við sitt, stæðu við það sem þeir lofuðu. Það er krafan sem ég held að almenningur geri til okkar þingmanna með þeim skilaboðum sem send eru í könnun Gallup fyrir tveimur vikum síðan, að við stöndum í lappirnar í málinu eins og nokkur kostur er, leitum allra þeirra leiða sem færar geta verið og að menn nálgist málið þannig að ef málið gengur í gegn í meginatriðum eins og það liggur fyrir núna verðum við að fá meiri tíma. Með einhverjum ráðum þarf að kaupa tíma til að tryggja þær varnir sem nauðsynlegar eru. Það er alveg útilokað mál, alveg sama hvort við horfum á þá 15 liði í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lagðir eru til eða fjárveitingar til MAST í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, að búið sé að vinna þann undirbúning sem nauðsynlegur er. Ég mjög hræddur um að við verðum tekin rækilega í bólinu þann 1. september næstkomandi.

Ég vona að nefndin taki þetta mál allt til mjög gagngerrar skoðunar og endurskoðunar og að farið verði eins varlega og nokkur kostur er. Ég held að ef vel er að gáð finnist leiðir sem allir geti lifað bærilega við og meginþorri landsmanna verði sáttur við. En sú leið er ekki römmuð inn í því frumvarpi sem nú liggur fyrir.