149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[21:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég hef hlustað hér ræður í allan dag, missti af ræðum frá korter í sjö af því að það er dagur einhverfra í dag og ég fór að sjá magnaða heimildarmynd um hinar ósýnilegu konur sem haldnar eru einhverfu. Kem síðan hingað inn og hlustaði á síðasta ræðumann sem mér skilst og var að fá upplýsingar um að hafi verið svona ljómandi ánægður með ræðu varaformanns Viðreisnar, sem greinilega hefur skilað sínu og ruggað bátnum. Það er gott, það segir mér að hann hefur einfaldlega verið að fara yfir staðreyndir og segja hlutina eins og þeir eru.

Ég efast ekki um að hann hefur farið yfir þá gríðarlega miklu hagsmuni sem felast í því fyrir Ísland að fara eftir þeim dómi sem EFTA-dómstóllinn kvað upp og varðar innflutning á matvælum, málið sem við tölum um sem ferska kjötið. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur sett fram þetta frumvarp. Ég hlustaði á ræðu hans sem og annarra fyrr í dag og vil hrósa ráðherra fyrir ræðu sem var yfirgripsmikil, fór vel yfir staðreyndir máls, fór vel yfir söguna. Það vita allir hér inni að ég gagnrýni mjög þessa ríkisstjórn, finnst þetta vera íhaldsframsóknarstjórn, ég veit ekki hvort til er herfilegri blanda, en þannig er þetta. Það þarf enginn að segja mér að þessi ríkisstjórn fari hér fram með mál sem er ætlað að ógna fæðuöryggi landsins, matvælaöryggi landsins eða fara gegn bændum. Í þessu máli styðjum við ríkisstjórnina. Við gerum það. — Mér þætti gott, frú forseti, ef það væri lokað hér til hliðar rétt á meðan þó að spjallið til hliðar sé alveg ljómandi.

Það skiptir máli að hafa í huga, þegar við ræðum þetta mál, þá miklu hagsmuni sem eru undirliggjandi fyrir Ísland, íslenskt atvinnulíf, íslenskt efnahagslíf, við að fylgja þessu eftir. Þetta skiptir máli, ekki bara fyrir landbúnaðinn heldur fyrir annan útflutning eins og t.d. sjávarafurðir, sem er m.a. grunnurinn að því að þessi leið var farin á sínum tíma. Þá voru vegnir og metnir hagsmunir og þáverandi landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins fylgdi þessu úr hlaði.

Dómurinn er skýr. Við höfum upplifað nokkur mál á umliðnum dögum og misserum þar sem er eins og ráðherrar í ríkisstjórn vilja velja eftir hvaða dómum þeir ætli að fara, dómum sem hafa komið utan. Ég hef varað við því í þessari umræðu og í tengslum við þetta mál. Þetta er ekki í boði. En ég vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir framsöguræðuna sem er um leið mikilvægt lögskýringargagn með þessu máli, hún útskýrir mjög vel af hverju þessi leið er farin. Það er búið að rýna þetta vel. Ráðuneytið hefur unnið þetta með sérfræðingum og það hafa verið gefnar mjög glöggar útskýringar, t.d. með sýklalyfjaónæmið. Það er eðlilegt að fólk sé hrætt og við verðum að hlusta á það. Við verðum að snerta það. Við verðum að ávarpa það og segja: Þið þurfið ekki að vera hrædd. Og miðað við ástandið núna þá breytir þetta frumvarp ekki neinu varðandi núverandi fyrirkomulag á innflutningi á ferskum kjötvörum. Við verðum líka að taka tillit til þess.

Við segjum það alveg skýrt og klárt í Viðreisn: Við viljum afnema tollvernd á landbúnaðarvörum. Við viljum hins vegar að sú tollvernd sem nemur að jafngildi um 17–19 milljörðum hugsanlega fyrir landbúnaðinn fari til stuðnings landbúnaðinum í staðinn. Það er ekki það að við viljum draga úr stuðningi við landbúnaðinn, við viljum bara gera það á grunni frjálsra viðskipta, frjáls markaðar, og um leið styðja og taka betur utan um landbúnaðinn og gera stuðninginn við bændur markvissari en nú er. Stundum finnst mér eins og landbúnaðarkerfið sem við erum búin að koma upp, margt ágætt í því, sé gert fyrir kerfið en ekki bændur sjálfa, ekki neytendur sjálfa. Það er svolítið eins og menn hafi týnt sér í því í staðinn fyrir að vera með markvissari stuðning. Það er efni í aðra umræðu. En það sem ég tel mikilvægt í þessu er að við hlustum á þær efasemdarraddir sem hafa heyrst og sem reynt hefur verið að svara. Það er gert í þessu frumvarpi.

Ég hlustaði á ræðurnar hér í dag hjá öllu því góða fólki sem ég virði mjög og kom með sínar ábendingar. Þetta eru hins vegar allt ábendingar sem hafa verið settar fram og voru uppi í vörnum Íslands gagnvart EFTA-dómstólnum, bæði á fyrri stigum og á síðari stigum. Þetta eru allt ábendingar sem við höfum reynt og sett fram. Ég efast ekki um að allir landbúnaðarráðherrarnir, hvort sem þeir voru Framsóknarflokksins, Vinstri grænna eða Sjálfstæðisflokksins, hafi einmitt reynt að halda uppi þessum gagnmerku vörnum fyrir íslenskan landbúnað á grunni EES-samningsins. Það hefur ekki gengið. Við erum búin að fara hinn lögformlega farveg sem við undirgengumst með því að skrifa undir EES-samninginn. Þess vegna er þessi leið farin sem er í frumvarpinu og það er búið að kortleggja nokkurn veginn allt. Það er líka búið að leggja fram mikilvæga aðgerðaáætlun að mínu mati sem snýr að neytendavernd og betri merkingum. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að eftirlitið og upplýsingarnar séu þannig að þær verði mun betur úr garði gerðar en er í dag, bæði á innlendum matvörum, en ekki síður erlendum. Þetta gildir um bæði útlendar vörur sem innlendar, allt í þágu neytenda og aukins gagnsæis. Það mun styðja við svo margt annað, ekki síst aukna nýsköpun.

Ég er sannfærð um það, ekki bara eftir að hafa verið skamman tíma í landbúnaðarráðuneytinu, heldur líka eftir að hafa verið 20 ár á þingi, á þessu ári eru 20 ár síðan ég settist fyrst á þing, að íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir gríðarlegum tækifærum. Undirstöður íslensks landbúnaðar eru góðar og við getum sótt fram, m.a. á grunni frjáls markaðar, opins markaðar og í trausti þess að einmitt þessi gróska sem hefur verið í íslenskum landbúnaði fái núna að nærast enn frekar. En auðvitað þarf landbúnaðurinn okkar áfram stuðning. Það er ekki spurning.

Varðandi aðgerðaáætlunina þá er m.a. talað um viðbótartryggingar, betri merkingar matvæla, allt sem ég tek undir. Við viljum draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og við þurfum líka að taka svolítið til í heimahögunum. Við vitum að það hefur greinst sýklalyfjaónæmi í íslenskum matvælum og við þurfum að skoða hvað hægt er að gera. Ég veit að margir íslenskir bændur sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að nota sýklalyf eru að kanna allar leiðir og finna út úr því með sem bestum hætti að vara þeirra verði enn betri og sneiða fram hjá sýklalyfjum til þess að varan verði hreinni. Þetta er eitthvað sem við eigum að hjálpa bændum með og við gerum það í gegnum rannsóknir, með því að efla rannsóknir og þróun í tengslum við íslenskan landbúnað og við eigum líka að ýta við og styðja ráðherra í því að koma með eina öfluga matvælastefnu og helst sameina sjóði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs með það markmiði að efla matvælaframleiðslu og rannsóknir.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að það er margt sem hægt er að taka undir í þessu frumvarpi og það er meira sem sameinar okkur í þessu máli en sundrar. Ég hef sjálf ákveðin varúðarsjónarmið þegar kemur að þessu máli og tek undir það og hef fyllsta skilning á því að fólk vilji fara vel yfir þá þætti. Það má hins vegar ekki beita hræðsluáróðri til að halda landinu lokuðu, til að gæta sérhagsmuna. Það er ekki í boði og undir það vil ég ekki taka. Við þurfum heldur ekki að fara þá leið. Við getum farið aðrar leiðir, haft opinn markað, uppfyllt okkar alþjóðaskuldbindingar og um leið stutt við íslenskan landbúnað og þar með íslenska neytendur.

Það veldur mér ákveðnu, ég ætla ekki að segja hugarangri, en það er umhugsunarefni að skynja það hér í fyrri ræðum, ekki síst af hálfu stjórnarþingmanna, að það virðist eiga að nota hv. atvinnuveganefnd til að koma jafnvel upp einhverjum girðingum. Það hefur verið talað um fresti, m.a. á þessu máli. Það hefur verið reynt. Við höfum í meira en 10 ár hummað málið fram af okkur, meira að segja nokkuð markvisst af hálfu nokkurra ráðherra. Málinu hefur verið ýtt frá, því hefur verið seinkað, því hefur verið frestað til þess að þurfa ekki að uppfylla þessar skuldbindingar. Það er alvarlegt af því að það eru svo miklir hagsmunir sem hanga á þessari spýtu, hagsmunir sem tengjast EES-samningnum sem hefur verið okkur Íslendingum ótrúlega dýrmætur, hvort sem er á sviði neytendaverndar, vinnuréttar og svo mætti lengi áfram telja. Við höfum einfaldlega ekki efni á því að standa ekki við okkar skuldbindingar. En við gerum það auðvitað af varúð og varkárni. Það sýnir líka þetta frumvarp. Við gerum það þannig að við erum búin að gera heimavinnuna okkar. Það kemur fram m.a. í frumvarpinu.

Ég vara við því ef það eru hér einstaklingar, sama í hvaða flokki þeir standa, sem ætla að taka þetta mál og snúa því á hvolf og reyna að kokka upp einhvern veruleika sem ekki er. Það er búið að fara í gegnum hvern einasta þátt sem menn hafa sett fram. Eins og ég segi þá ber ég virðingu fyrir þeirra skoðunum en það er búið að taka á þeim og svara þeim. Yfirdýralæknir núverandi og líka fyrrverandi hafa m.a. bent á að hættan varðandi m.a. sýklalyfjaónæmið er ekki fyrst og fremst í gegnum innflutt kjöt, heldur ferðamenn. Af hverju einbeitum við okkur þá ekki að því? Aðgerðaáætlunin kemur inn á það og snertir á því. Við erum einmitt að bregðast við þeim ábendingum, taka á því sem við þurfum að gera til þess að koma í veg fyrir smithættu. Það er ekki í gegnum landbúnaðarvörur eins og sýnt hefur verið fram á. Það má miklu frekar gagnrýna ríkisstjórnir síðustu ára, núna þegar eru komnar 2,3 milljónir ferðamanna til landsins, að hafa ekki gert eitthvað í þessu. Ef menn hafa þennan mikla metnað til að verja íslenska náttúru, verja íslenskar vörur og framleiðslu, þá hefðu þeir fyrir löngu átti að leggja fram tillögur í þá veru hvernig við pössum upp á það að þessi nýja atvinnugrein sem ferðaþjónustan er leiði ekki til þess að hún ógni matvælaöryggi. Það er miklu frekar hægt að spyrja þeirrar spurningar.

Ég vara við því að það verði farin að einhverju leyti fjallabaksleið sem mér fannst m.a. formaður atvinnuveganefndar vera að ýja að, að það ætti að nota m.a. aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem boðuð er til að byggja það mikla garða, það miklar girðingar að það væri ekkert hægt að flytja inn, það væri bara lífsins ómögulegt fyrir innflytjendur. Vel að merkja, innflytjendur eru líka bændur, fyrirtæki í eigu bænda. Það eru ekki bara vondu hræðilegu verslanirnar, sem sumum hér innan dyra er mjög í nöp við, heldur flytja líka fyrirtæki í eigu bænda inn erlendar matvörur. Það þýðir ekkert að fara í þá vinnu að koma upp þessum hindrunum og girðingum innan atvinnuveganefndar. Ég mun, sitjandi í atvinnuveganefnd, fylgjast vel með því. Það frumvarp sem hér liggur frammi af hálfu ráðherra býður ekkert upp á fresti. Við höfum einfaldlega ekki heimild til þess að fara fram á frekari frestun, ekki nema menn þori að koma hingað upp og segja mjög opinskátt: Við ætlum ekki að fylgja eftir okkar alþjóðlegu skuldbindingum. Við ætlum ekki að fylgja eftir dómi EFTA-dómstólsins. Öðruvísi mér áður brá. Sumir hafa einmitt rætt um það og fagnað sérstaklega ákveðnum dómum EFTA-dómstólsins. Er það þá bara valkvætt af hálfu þingmanna eftir hvaða dómum á að fara og hverjum ekki? Það er hættulegt.

Það sem ég óttast eftir daginn sem sagt, svo að ég haldi áfram, herra forseti, sem vel að merkja svaraði vel og skilmerkilega í þessari umræðu, kom með gott innlegg inn í umræðuna, er að meðferð atvinnuveganefndar verði til þess að gjörbreyta málinu. Það má ekki gerast. Það er engin ástæða til þess að við frestum, eins og ég segi, við höfum ekki heimild til þess. Það er enn þá mikil vinna fram undan. Það er ástæða til þess fyrir okkur að fenginni reynslu, m.a. eins og ég gat um fyrr í dag út af sérostunum, að hafa varann á þegar ríkisstjórnarflokkarnir þrír, og mér sýnist að þeir verði studdir mjög af Miðflokknum, koma að þessu máli. Við þurfum að framfylgja (Forseti hringir.) okkar alþjóðaskuldbindingum. Það er greinilegt að það þarf (Forseti hringir.) ákveðið eftirlit með því innan atvinnuveganefndar eftir ræður dagsins.