149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[21:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég heyrði ekki betur en þingmaðurinn hefði ekki heyrt ræðuna sem ég flutti hér í dag og ég get vorkennt henni út af því. Ræða mín fjallaði mest um neytendur og þeirra hag reyndar. En bara svo að hv. þingmaður sé upplýst um það þá var varaformaður Viðreisnar ekki hér í salnum að hrista upp í einu eða neinu heldur var hann með merkimiðapólitík af ódýrustu sort og persónulegt skítkast. En ég ætla ekki þangað.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þingmanni er það mjög í mun að við stöndum við okkar erlendu skuldbindingar, eins og öllum, að ég held, sem hér hafa talað í dag. Málið er hins vegar það að við erum nokkur hér inni sem höfum talið að þetta mál sé ekki á þeim stað að það verði til að tryggja neytendum örugga vöru, að það sé ekki á þeim stað að hægt sé að treysta því að það hafi ekki áhrif á viðkvæman búsmala landsins út af sjúkdómahættu og þess vegna höfum við verið að tala um að skerpa þurfi á þessu máli í atvinnuveganefnd, og ég efast ekkert um að hv. þingmaður, sem hér talaði á undan, mun taka þátt í því. En það eru ýmsar aðgerðir sem eru nefndar til sögunnar sem eru bara á þeim stað tímalega séð að þær munu ekki virka 1. september nk. þegar þetta mál á að taka gildi.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort henni finnist ekki að við þurfum að vera algerlega örugg um að við séum með þetta mál í þeim farvegi að það muni hvorki skaða neytendur né framleiðendur, (Forseti hringir.) að við þurfum að vera með það alveg á hreinu áður en við leggjum upp í þá vegferð að lögin taki gildi.