149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[21:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins stutt um varaformann Viðreisnar, ég hef bæði unnið með honum hér og annars staðar, m.a. hjá Samtökum atvinnulífsins. Ég held að sanngjarnari manni, málefnalegri, hafi ég eiginlega aldrei unnið með. En það sem er stundum erfitt er að hann er svo ofboðslega hreinn og beinn. Hann segir hlutina eins og þeir eru. Það getur oft stungið. Ég efast ekki um að hann hefur einmitt gert það hér í dag.

Mér finnst ekki boðlegt að segja að það frumvarp sem við ræðum af hálfu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra boði stórkostlega hættu fyrir neytendur eða íslenska bændur. Mér finnst það bara ekki boðlegt. Ég er í stjórnarandstöðu. Það vita allir hver afstaða mín er gagnvart þessum framsóknarflokkum sem eru í ríkisstjórn. En það mál sem liggur hér fyrir er vel unnið. Ég verð að taka málefnalega afstöðu til þess. Mín málefnalega afstaða er sú að þetta sé rétt skref, hárrétt skref að stíga núna. Ég óttast að í atvinnuveganefnd verði þrýst á allar leiðir — og þess vegna er ég ánægð með að hæstv. ráðherra hefur verið að hlusta hér — til að fresta málinu enn og aftur. Ég minni á að við höfum frestað þessu máli og hummað það fram af okkur í meira en tíu ár. Það er tími til kominn að við Íslendingar stöndum við okkar skuldbindingar, því við höfum miklu meira að græða á því en tapa að standa við þær.