149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[21:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Já, hæstv. forseti. Ég get ekki annað en ráðlagt hv. þingmanni að hlusta á ræðu varaformanns síns og komast að því hvað hann var málefnalegur með þeim hætti. Þá mun hún náttúrlega komast að því að hann var það alls ekki. En það er önnur saga.

En við verðum að vera ósammála, ég og hv. þingmaður, um að þetta mál sé það vel búið að það sé til þess fallið að geta náð þeim árangri sem þarf fyrir 1. september nk. Það eru allnokkur atriði sem voru tínd hér saman í dag þar sem hægt er að benda á það, alls konar aðgerðir sem menn ætla að grípa til, nota sérþjálfaða hunda sem ekki er búið að kaupa og þjálfa, sem tekur eitt til tvö ár o.s.frv. Það eru alls konar hlutir hér inni þar sem er, eins og maður segir, of seint í rassinn gripið. Það á að beina auknu fé til Matvælastofnunar, en það er ekki byrjað á því. Þetta er svolítið á þessum stað.

Við verðum að vera ósammála, ég og hv. þingmaður, um að þetta mál sé þannig búið að það sé til þess fallið að tryggja öryggi neytenda og framleiðenda. Og þetta er ekki hræðsluáróður. Þetta er bara niðurstaða sem menn fá með því að gaumgæfa það plagg sem hér liggur fyrir. Svo einfalt er það nú. Og það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort maður er í stjórn eða stjórnarandstöðu ef út í það er farið. Við erum í stjórnarandstöðu. Við erum ekki að reyna að hjálpa þessari stjórn á einn eða annan hátt, alls ekki. Okkur þykir þetta frekar lágkúruleg stjórn og hefur alltaf þótt og erum ekki hér til þess að auka hennar veg eða hjálpa henni þannig á leið. En það breytir ekki því að við höfum skyldur gagnvart fólkinu í landinu, hvort sem það eru neytendur eða bændur eða þeir sem vinna við landbúnað. Við viljum að þeirra hagur versni ekki við það að þetta mál verði keyrt í gegn eins og hér á að gera.