149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[21:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég geri það að sjálfsögðu líka. Eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á er þetta stjórnarfrumvarp og eins og gengur eru reifuð mismunandi viðhorf. Við erum að tala um veiðistjórn á tiltölulega nýjum stofni en dýrmætum, verðmætum stofni sem Ísland hefur yfir að ráða innan efnahagslögsögu sinnar.

Ég hefði því haldið út frá hugmyndafræðinni að hæstv. forsætisráðherra og aðrir ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna hefðu komið með einhverjar athugasemdir — sem þau gerðu blessunarlega út af smábátunum — bara út af því prinsippi. Það að aðrir valkostir skuli ekki hafa verið metnir heldur eigi eingöngu að ganga út frá núverandi lagaverki segir mér risasögu. Það segir mér ríkisstjórn ætlar ekkert annað en að festa varanlegar veiðiheimildir, líka við makríl. Henni er að takast það núna með þorskkvótann og undirstrikaði það eiginlega með síðustu breytingum á veiðigjöldum. Ríkisstjórnin ætlar að fara sömu leið með makrílinn. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er ekki réttur skilningur.

Til upplýsingar um málið, bæði fyrir ræður okkar þingmanna á eftir en líka fyrir atvinnuveganefnd, þurfum við að fá að vita hvaða sjónarmið, hvaða hugmyndafræði er lögð til grundvallar. Út frá frumvarpinu er ekki hægt að ráða neitt annað en að það eigi ekki að vera tímabundnir samningar. Ergo: Það var ekki einu sinni lögð áhersla á það af hálfu forystu flokksins í ríkisstjórn, sem mér finnst miður. Verið er að festa í sessi varanlegar veiðiheimildir. Við hljótum að gera það að umtalsefni. Það er ekki hægt annað. Þetta er risamál, afgreitt og sett hér inn í kvöldið. Þetta er prinsippmál og því hvílir á herðum hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sú skylda að upplýsa nákvæmlega hver umræðan og aðdragandinn var af hálfu ríkisstjórnarinnar og hvaða fyrirvarar voru settir við málið. (Forseti hringir.) Ef engir fyrirvarar voru settir er það líka frétt út af fyrir sig.