149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var athyglisverð ræða um kosti útboðs sem ég er að vísu algerlega ósammála. Ég tel þetta eina af verstu hugmyndum sem komið hafa fram í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð. Það er bara ein spurning í kringum þetta. Makríllinn sem þarna er um að ræða, í þessu frumvarpi, er hann sameign þjóðarinnar? Hann er veiddur einhvers staðar í miðju Atlantshafi, ekki í okkar fiskveiðilögsögu. Hvers vegna sækjum við okkur hlutdeild í þessum kvóta? Vegna þess að einhverjir útgerðarmenn ákváðu að sigla langt suður í höf til veiða. Svo telja einstakir þingmenn það mikið réttlætismál að við tökum — ég veit ekki á hvaða grundvelli, kannski á þeim grundvelli að menn halda að þeir eigi fiskinn — þessa aflahlutdeild og bjóðum hana upp; að veiðireynslan hafi enga þýðingu, að frumkvöðlarnir hafi enga þýðingu.

Telur hv. þingmaður að þessi frumkvöðlastarfsemi, þessi leið að fara að veiða þennan makríl og afla okkur þar með hlutdeildar í heildarkvóta í samningum — að þetta sé hægt út frá stjórnarskránni og verndun réttinda sem menn afla sér með því að fara að veiða? Ég held að þetta sé algjörlega fráleitt, sérstaklega við makrílveiðarnar. Þetta er náttúrulega vont við allar veiðar en sérstaklega í stofni sem er ekki einu sinni veiddur innan okkar eigin lögsögu og ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að segja að sé sameign þjóðarinnar. Við getum auðvitað ákveðið veiðina á grundvelli fullveldisréttarins, stjórnmálamenn geta ákveðið það. En það er ekkert réttlæti að bjóða þetta allt saman upp.