149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það mætti snúa því við sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði hér áðan: Hvers vegna trúa jafnaðarmenn á markaðinn þegar fiskurinn er undir en ekki í velferðarkerfinu? (OH: Það er svolítið mikill munur þarna.)En markaðslögmálin eru oft einkennileg í Samfylkingunni.

Mig langar að ræða aðeins það frumvarp sem hér liggur fyrir þar sem er verið að bregðast við hæstaréttardómi og því að aflaheimildum í makríl, frá því að hann fór að veiðast við Íslandsstrendur í kringum 2005–2006, hefur verið úthlutað með reglugerð. Það er auðvitað ekki gott og hefði átt fyrir löngu síðan að lögfesta hvernig við úthlutum aflaheimildum í makríl. En þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir og við honum verður að bregðast.

Munurinn á útgerðarformum á þessum veiðum er auðvitað til staðar og við fulltrúar Vinstri grænna í atvinnuveganefnd höfum sett fyrirvara í okkar þingflokki við þetta mál. Við teljum að við þurfum að skoða það vel inni í atvinnuveganefnd. Sérstaklega hvernig staða minni og meðalstórra báta er gagnvart þeim reglum sem eru í þessu frumvarpi.

Við þekkjum það að þessir minni bátar hófu að einhverju gagni veiðar á makríl þegar makríllinn gekk hér nær ströndinni um 2011. Veiðireynsla þeirra er því ekki söm og þeirra stóru sem byrjuðu sínar veiðar á úthafsmiðum. Vissulega voru menn þar frumkvöðlar í að afla þessarar reynslu þegar makríllinn fór að ganga hér bæði í okkar lögsögu og hér nær landi. Þetta er einn af þeim deilistofnum sem við eigum að semja um, þó að oft hafi reynst erfitt að ná samningum.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á erum við að veiða meira heldur en ráðleggingar ICES segja til um varðandi þennan stofn. Það er auðvitað mikil ábyrgð sem fylgir því að fara óvarlega í þessum efnum. Það er mjög brýnt að okkur takist að ná samkomulagi við þær þjóðir sem við þurfum í þeim efnum og stýra þessum veiðum með ábyrgum hætti, líka varðandi veiðiráðgjöf og hvernig gæðunum er skipt.

Það var mikil búbót fyrir Íslendinga að fá makrílinn inn í sína lögsögu og ég tala nú ekki um á þeim tíma sem virkilega þurfti á að halda til þess að blása í glóðir í efnahagslífinu eftir hrunið. Það má segja að hann hafi vissulega verið kærkominn gestur inn í okkar landhelgi og til nýtingar af okkar skipa- og bátaflota til að lyfta efnahag þjóðarinnar upp. Og hann gerði það vissulega.

Ég vil inni í atvinnuveganefnd skoða frekar þessa útfærslu og skoða þessi viðmiðunarár milli ólíkra skipastærða, bátastærða. Eins og málið lítur út núna væru úthlutun smábáta sem hafa verið að veiða makríl hér á króka við strendur landsins um 2% af heildarúthlutun. Mér þykir það vera ansi þunnur þrettándi og tel að við getum búið þannig um að hlutur þeirra sé meiri.

Við þekkjum það að þessi stóru og öflugu skip munu aldrei fara að skarka uppi við strönd landsins þar sem þessi makríll veiðist, feitur og fínn, seinni partinn í ágúst eða september. Það eru auðvitað krókabátar sem geta veitt hann við strendur landsins en ekki þessi stóru skip. Það er því mjög brýnt að við stöndum vörð um þá stærð af bátum sem geta veitt á króka við strendur landsins og tryggjum þeirra hlut þegar við setjum lög um veiðar á makríl, sem auðvitað er mjög nauðsynlegt að gera.

Hlutur smábáta, eins og ég nefndi hér áðan, hefur verið að einhverju gagni frá 2011. Þá var hann samt ekki mikill, 304 tonn, fór upp í 1.099 tonn 2012 en var í fyrra kominn upp í 3.501 á þá báta sem voru að veiða. En heildarmagnið sem slíkt, svo ég taki þá tölu, var 129.579 tonn sem smábátar veiddu.

Ég gæti verið að fara með rangar tölur hérna en það kemur þá bara í ljós.

Hlutur smábáta var 2018 orðinn tæp 2,9% en var þegar mest lét árið 2014 4,88%. Þegar það var hlutdeildarsett árið 2014 fækkaði bátum mjög mikið og þeir minni sem fengu minni hlutdeild sáu sér ekki hag í að sækja þann afla svo að bátum fækkaði árið 2015 úr 121 niður í 57 báta og hafa verið í kringum 50 frá þeim tíma.

Ég tel því að við eigum að gera bragarbót núna þegar við fáum málið til umfjöllunar. Reyna að útfæra þetta þannig að það standist alla lagalega skoðun og við sem löggjafi getum búið þannig um hnútana að við tryggjum þessum krókaaflamarksbátum réttlátan hlut í heildaraflanum. Það er fullur möguleiki á því að hafa áfram pott, eins og hefur verið undanfarin ár, inni í 5,3% félagslega hlutanum. Þar var á síðasta ári pottur upp á 2.000 tonn sem menn gátu nýtt sér í krókaaflamarkskerfinu, leigt úr, fengið úthlutað úr. Hann er ekki til staðar eins og þetta lítur út núna og ég tel að það sé mjög mikilvægt að við tökum út fyrir sviga pott til að nýta í félagslega hluta kerfisins, 5,3% kerfisins, og styrkjum grunninn fyrir þessa litlu báta. Það eru auðvitað margir bátar sem hafa lagt í mikinn kostnað við búnað til að stunda makrílveiðar. Ég tel að mikilvægt að við styðjum við þá.

Í Noregi er hlutur smábáta 16–18%. Þar hafa Norðmenn ákveðið að tryggja hlut smábátaflotans við strendur landsins, þeirra sem eru að krókaveiðum á makríl, í þessu hlutfalli. Ég tel að við þurfum að horfa til þess, þó að við séum ekki endilega að taka þá tölu. Við þurfum virkilega að horfa til þess og því sé talan, eins og hún leit út í þessu frumvarpi — 2% fyrir smábáta — ekki ásættanleg. Það verði að horfa með sanngirni á að þessir minni bátar koma miklu seinna inn í veiðar. Það verður að horfa til þess þegar horft er til viðmiðunarára hjá þeim.

Eitt er það líka sem ég vil vekja athygli á og mér finnst mikilvægt að tekið sé til skoðunar. Eins og ég skil þetta er framsal á þessum veiðiheimildum og engin girðing á milli krókaaflamarkskerfisins og stóra kerfisins. Í okkar fiskveiðistjórnarkerfi í dag er girðing þar á milli. Ég tel að við eigum við að horfa til þess að það verði líka girðing á milli í þessu kerfi. Það sé mikilvægt.

Og það er ýmislegt sem við þurfum að horfa til. Ég ætla ekki að binda mig við neitt ákveðið en ég tel að okkur í atvinnuveganefnd beri skylda til þess, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að skoða vel allar umsagnir.

Það hafa komið umsagnir í samráðsgáttinni, eins og var talað um, og við fáum áfram umsagnir til okkar og glímum við að gera þetta þannig að menn geti eins vel við unað og hægt er í svo umdeildu máli sem það vissulega er. Það var minnst á það hér áðan hvort Vinstri græn hefðu komið að þessu máli á einhverjum stigum. Við vitum að þetta mál er á forræði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en við munum skoða í góðri samvinnu að gera, væntanlega, einhverjar breytingar á málinu í nefndinni og stefna að því að ná góðri sátt um þær.

Ég vil bara vekja athygli á því að við erum í ríkisstjórn þar sem flokkar hafa mismunandi áherslur varðandi fiskveiðistjórnina. Við höfum lagt fram og náð sátt um ákveðna þætti í fiskveiðistjórnarkerfinu í stjórnarsáttmála og höfum verið að vinna út frá honum. En það liggur ekki fyrir í stjórnarsáttmála, eðli málsins samkvæmt, miðað við ólíkar stefnur flokkanna í sjávarútvegsmálum, ef ætti að fara að taka fiskveiðistjórnarkerfið upp frá grunni. Og þá liggur fyrir að það verður ekki skorið upp með manni og mús í þessari umferð. En við getum lagfært og komist að samkomulagi um ýmislegt sem er til bóta og ég tel það bara vera brýnt að við gerum það og hugum að því að það sé sem mest jafnræði, að gæðunum sé deilt út með réttlátum hætti og horft til annarra landa sem við berum okkur oft saman við: Norðmenn sem veiða makríl og Færeyinga, sem eru auðvitað líka stórir í makrílveiðum. Við getum tekið ýmislegt til skoðunar sem er þar.

Það kom fram hér í ræðu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur að það væri verið að bjóða upp makríl fyrir um 89 kr., 87 eða 89 kr., í Færeyjum. En þær tölur sem ég hef heyrt að fáist fyrir kílóið af makríl upp úr sjó hér á króka hljóða upp á 90 kr. Svo að það dæmi gengur varla upp. Eitthvað er þar nú annað á ferð, einhver jaðartilboð og uppboð. Því að eitthvað vilja menn fá fyrir sinn snúð fyrir veiðarnar og geta ekki borgað sambærilega tölu per kíló á uppboði og þeir fá síðan fyrir aflann á markaði.

Við Vinstri græn höfum ekki verið neitt sérstaklega markaðsdrifin í gegnum tíðina og stígum mjög varlega til jarðar ef markaðurinn einn á að ráða för. Við viljum félagslegt réttlæti og jafnræði, skoða hlutina út frá skynsemi og hvað sé gerlegt hverju sinni og reyna að að leggja gott til málanna í þessu máli eins og öðrum þeim málum sem við höfum til umfjöllunar í þessu stjórnarsamstarfi.