149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var áhugavert svar, því að undir lokin kom hv. þingmaður og sagði að Vinstri græn væru hlynnt tímabundnum samningum. Þeirri stefnu og því sjónarmiði hefur greinilega ekki verið haldið á lofti í þessu máli, því að þessi mál eru auðvitað ekki ákveðin bara við ríkisstjórnarborðið. Við vitum það. Ef ekki er búið að breyta fyrirkomulaginu, sem er ekki að mér vitandi, fara ríkisstjórnarmálin fyrir þingflokkana og þeir samþykkja málin.

Og það virðist vera að hvorki þingflokkur Vinstri grænna né ráðherrarnir hafi sett þessa fyrirvara um tímabundnu samningana. Mér finnst það miður, því að þetta er mál sem skiptir gríðarlega miklu máli eða er innlegg inn í það hvernig við reynum að koma á fyrirsjáanleika, stöðugleika og tímabundnum samningum, til þess að koma í veg fyrir varanlegar úthlutanir til útgerða.

Það er alveg rétt sem menn hafa sagt, þingið getur breytt hvenær sem er. En af hverju erum við að fjalla um þetta mál á þessum forsendum? Af því ríkið var skaðabótaskylt á grunni þeirrar ákvörðunar sem m.a. ráðherrar Vinstri grænna tóku á sínum tíma varðandi makrílinn. Við erum skaðabótaskyld.

Þess vegna spyr ég: Af hverju nýttum við ekki tækifærið núna og breyttum þessu og notuðum makrílinn sem dæmi um hvernig við gætum þróað okkur áfram í átt að auknu réttlæti? Við erum ekki með allt undir. Af hverju var ekki hægt að fara í tímabundna samninga?

Ef hv. þingmaður er á móti uppboðsleið eða markaðsleið, þá er bara að taka skrefið með tímabundna samninga; eins og til 20 ára; og svo er hægt að ákveða gjaldafyrirkomulagið. Ég er tilbúin til þess að ræða það, þó að ég sé eindreginn talsmaður þess að fara markaðs- eða uppboðsleið. En þetta hefði verið svo kjörið tækifæri fyrir Vinstri græn til þess að sýna að þau séu reiðubúin til þess að standa alla vega á þessu prinsippi sínu varðandi tímabundnu samningana. Því það er ekki allt kerfið undir. Makríllinn er kjörið tækifæri fyrir okkur til þess að rétta þann kúrs sem tekinn var, því miður, á sínum tíma af hálfu ráðherra Vinstri grænna.