149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bara þakka hv. þingmanni fyrir það hve mikið traust hún ber til okkar Vinstri grænna. Hún telur greinilega afl okkar og kraft vera meiri en þingstyrkur okkar sýnir fram á.

Ég veit alveg að við stöndum í lappirnar og stöndum vel fyrir okkar, öll sem erum hér á þingi. En það er nú svo að þetta stóra mál varðandi auðlindamálin og að koma auðlindaákvæði í stjórnarskrá og hvernig fiskveiðistjórnarkerfinu er háttað — ég veit ekki hve margar nefndir hafa verið síðustu 20 árin með fólki úr öllum flokkum, flokkum sem eru ekki lengur á þingi og fjölda manns sem hafa glímt við þetta verkefni síðustu 20–30 ár, bara eins lengi og ég hef verið að vasast í pólitík. Og aldrei hefur náðst niðurstaða. Við Vinstri græn erum bara raunsæ.

Eins og ég nefndi gerðum við fyrirvara, fulltrúar atvinnuveganefndar í þingflokki Vinstri grænna. Við ætlum að glíma við það verkefni að skoða þessar umsagnir og horfa til hagsmuna, sérstaklega lítilla og meðalstórra útgerða, varðandi makrílinn við strendur landsins á króka. Því að við teljum að það muni ekki einhverjar aðrar útgerðir fylla það skarð. Og við munum gera það, glíma við það.

En að við getum sisvona í leiðinni gert grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eftir okkar höfði er auðvitað bara tálsýn sem er ekki framkvæmanleg við þessar aðstæður. Við erum með stjórnarsáttmála. Þar kemur margt gott fram sem er til bóta varðandi ýmsa þætti, varðandi byggðafestu og útgerðarform minni báta, að styrkja strandveiðar og margt annað gott. En það náðist ekki niðurstaða (Forseti hringir.) um að fara að gera grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.