149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:40]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996, með síðari breytingum, stjórn fiskveiða á makríl. Eins og kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, varð fyrst vart við makríl, kannski ekki við Íslandsstrendur, upp úr árinu 2005 og honum landað og jókst það mjög hratt árin þar á eftir. Var talað um að þetta hefði verið hálfgerð himnasending á sínum tíma, rétt um og eftir hrunið, að fá makrílinn inn í lögsöguna. Það eru alveg orð að sönnu. Mest fór upp í 160.000 tonn á árunum í kringum 2014 og þá voru yfir 250 skip að veiðum, skip og bátar.

Þetta frumvarp er samið í raun og veru út af hæstaréttardómi sem féll á síðasta ári. Langar mig aðeins að vitna í inngang greinargerðar með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á makríl en fram til þessa hefur stjórn veiða á stofninum lotið reglugerðum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og leyfum frá Fiskistofu sem sett hafa verið til eins árs í senn. Það er tímabært að taka upp slíkt skipulag enda raunar verið skylt um langt árabil án þess að aðhafst hafi verið í þá átt með öðru en því að auka nokkuð frjálsræði um skipulag veiðanna samkvæmt téðum reglugerðum, þannig að svipað hafi til aflamarksskipulags.“ — Þ.e. í þeim reglugerðum sem hafa verið við lýði undanfarin ár.

Í upphafi frumvarpsins í 1. gr. er talað um að Fiskistofa skuli úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008–2018, að báðum árum meðtöldum. Eins og ég lít á þetta er um einhvers konar málamiðlun að ræða eða til að mæta bæði þessum dómi og öllum þeim sem að slíkum veiðum hafa komið á því tímabili. Í dómnum eru reyndar skaðabótakröfur á íslenska ríkið, þannig er það nú bara. Eins og kom fram líka í ræðu síðasta ræðumanns er hlutur smábáta rýr í þessu og er ég sammála ræðumanni að í því verðum við að vinna í atvinnuveganefnd smábátum til handa.

Mig langar að fara aðeins yfir sögu makrílveiða, svona gróft tekið, frá því að þær hófust og skrifaði ég pistil þegar hæstaréttardómurinn féll á síðasta ári. Pistillinn hljóðar einhvern veginn svona:

Undangenginn dómur Hæstaréttar 6. desember síðastliðinn í máli útgerðarmanna vegna hlutdeildar í makríl gegn íslenska ríkinu er um margt áhugaverður þó að ekki hafi hann komið öllum á óvart. Eflaust eru einhverjir sem munu líta á dóminn sem fordæmisgefandi og fara fram á skaðabætur og leiðréttingu. Í tilfellum útgerða sem fengu bæði úthlutað eftir veiðireynslu og úr potti myndi það einungis þýða að aflahlutdeildir færðust til innan sömu útgerðar. Eftir standa þá einungis smábátar en þeirra hlutur í heildaraflanum er afar lítill. — Ætla ég að koma aðeins betur að því á eftir.

Til þess að setja dóminn í samhengi tel ég rétt að rifja upp forsögu þess að makríl var úthlutað til annarra en þeirra sem höfðu veiðireynslu. Það er vert að minnast einnig á það að kvótanum var í upphafi eða fram til ársins 2015 úthlutað til eins árs í senn. Árið 2009 var 11.200 tonnum úthlutað til skipa en stór hluti þess afla var nýttur í bræðslu. Reglur um makrílveiðar voru býsna strangar árið 2010. Markmiðið var að makríll væri nýttur til manneldis en ekki í bræðslu. Tilgangurinn var að auka verðmæti og þar með tekjur þjóðarbúsins. Ekki mátti flytja afla á milli skipa, ekki einu sinni í eigu sömu útgerðar. Ástandið í hafinu var þannig að margar útgerðir, stórar og smáar, sáu ekki fram á að hafa næg verkefni og líklega af þeim sökum þótti eðlilegt að fleiri fengju að spreyta sig á veiðum og vinnslu á þessu nýfengna gulli. Það var því gefin út reglugerð sem úthlutaði 15.000 tonnum til skipa sem ekki höfðu stundað þessar veiðar og 3.000 tonnum til smábáta. Þetta ár var heildarúthlutunin 112.000 tonn og hlutur smábáta því mjög lítill og varla það stór að hann hefði áhrif á afkomu stórútgerða.

Á þessum tíma var makríll vaðandi um allan sjó og flestum þótti eðlilegt að fá að veiða hann. Kunnáttuleysi og gullgrafaraæði varð að vísu til þess að ýmsir fjárfestu um of í tækjum og búnaði. Margar smábátaútgerðir höfðu litla veiðireynslu og einhverjir ekki hafið veiðar og því með enga veiðireynslu þegar varanleg aflahlutdeild var sett á 2015.

Þetta varð engu að síður mikil búbót fyrir marga þá sem ekki höfðu úr of miklu að spila og fiskvinnslur vítt og breitt um landið náðu að nýta búnað sinn betur.

Í dag stendur eftir spurningin hvert framhaldið verður. Sennilega verður ekki hægt að taka til baka varanlega aflahlutdeild sem komið var á 2015. Bæturnar sem þegar hafa verið dæmdar munu að sjálfsögðu koma við þjóðarbúið — ef af verður — og enginn deilir um það að ákveðnar útgerðir urðu fyrir tjóni. Spurningin er hins vegar þessi hvort eðlilegt hefði verið að úthluta á sínum tíma óháð því hvernig fara ætti með hráefnið og hvort viðmiðunarárin hefðu ekki alveg eins átt að vera þau ár sem skip hófu veiðarnar fyrir alvöru, þ.e. þegar meira var gert úr aflaverðmæti.

Af því að ég minntist á smábátana áðan þá hafði ég lesið á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda að stjórn landssambandsins samþykkti eftirfarandi ályktun um frumvarpið. Langar mig, með leyfi forseta, að lesa það upp:

„Smábátaeigendur hófu fyrst veiðar á makríl að einhverju marki árið 2013. Tímabil veiðireynslu á hins vegar að vera 2008–2018. Stjórn Landssambands smábátaeigenda lýsir undrun yfir að hér hafi verið kynnt frumvarp sem mismunar útgerðaraðilum eftir stærð og aðstöðu til veiða.

Smábátaeigendur höfðu engin tök á að afla sér veiðireynslu á fyrri hluta tímabilsins þegar makríllinn var á fjarlægum miðum, langt utan farsviðs þeirra.

Stjórn Landssambands smábátaeigenda krefst þess að tekið verði tillit til þessa aðstöðumunar við fullvinnslu frumvarpsins.“

Í framhaldi af þessu má geta þess að makríll, sem gengur upp á grunnslóð og er á svæðum þar sem krókabátar veiða hann, er akkúrat á svæðum þar sem togarar koma aldrei og munu ekki veiða þann makríl sem kemur upp á grunnslóð. Því þykir smábátasjómönnum að mæta verði þessu í frumvarpinu á einhvern hátt og munum við í atvinnuveganefnd fjalla um það þegar frumvarpið gengur til nefndar. Tvö prósent til smábáta er ekki nema flís af þeirri köku og eins og kom fram áðan er pottur til smábáta eða til strandveiða við Noreg 16–18%. Hann fór hér upp í 4%, held ég, einhvern tímann.

Hráefnið sem kemur af þessum krókaveidda makríl fer allt til manneldis. Þetta er alveg gæðahráefni. Þetta er fiskur sem er aldrei eldri en um tíu klukkustunda gamall í bátunum, í ískrapa yfirleitt í kringum 0° og orðinn mjög feitur þegar krókabátarnir veiða hann. Það er upp úr verslunarmannahelgi sem hann fer yfirleitt að veiðast, a.m.k. undanfarin ár. Því er það í mínum huga réttlætismál að krókabátar fái að veiða úr þeim stofni sem gengur að hluta til upp að ströndum landsins og er ekkert á slóðum togara. Þannig að hvorugur útgerðarflokkurinn er að trufla hinn.

Þetta er eitthvað sem ég vona að við getum hnikað til í nefndinni. Það er ljóst að þetta er langur tími, þessi viðmiðunarár 2008–2018, tíu ár. Þetta dreifist því ansi mikið yfir flotann. En þetta frumvarp er komið fram. Ég hef farið aðeins yfir söguskýringar á því hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Um tíma var svolítið gullgrafaraæði og var mikið veitt í bræðslu fyrstu árin en síðan fóru menn að horfa til verðmætis sem betur fer. Ég segi enn og aftur að hráefnið sem smábátar koma með í land er 100% gott hráefni, alger stjörnufiskur. Ætla ég ekki að hafa mál mitt lengra að sinni.