149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[22:55]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um úthlutun aflaheimilda til veiða á makríl er í grundvallaratriðum vont mál. Er kannski ekki eftir miklu að vonast þar sem úthlutun aflaheimilda almennt séð er ekki í góðum málum.

Kemur þar aðallega tvennt til: Ákvörðunin um að úthluta kvóta í stað þess að fá fyrir hann greitt markaðsverð annars vegar og hins vegar sú staðreynd að miða á við veiðireynslu frá tímabili sem sjómenn gátu ekki vitað að frumvarp þetta mundi byggja á og höfðu sumir þeirra ekki einu sinni tækifæri til að veiða á fyrri hluta tímabilsins.

Það er skylda okkar löggjafans að verjast hruni fiskstofna með lagasetningu sem tryggir eðlilega umgengni við þá. Í staðinn erum við hér að verða vitni að tilraun á kostnað smábátaeigenda og minni útgerða. Tilraun til að lögbinda um ókomna tíð mismunun við úthlutun veiðiheimilda. Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra gangi nú fram með frumvarp sem snýr að því að lögbinda makrílkvóta út frá veiðireynslu síðustu 11 ára. Slíka reynslu hefðu minni útgerðir landsins mögulega lagt á sig ef vitað hefði verið að þessi leið yrði farin löngu seinna við að úthluta föstum kvóta — þar sem minni fyrirtækin fengu enga aðkomu að né tækifæri til að afla sér hennar.

Atburðarásin á miðunum síðan að makríll fór að veiðast við Íslandsstrendur hefur vægast sagt verið skrautleg. Við upphaf veiðanna var það svo að hvert einasta fljótandi fley stórskipaflotans var hér við mokveiðar á makríl. Stór hluti aflans var svo sendur í bræðslu. Hann fór ekki einu sinni á markað. Smábátaeigendur gátu fyrst hafið veiðar á makríl að einhverju marki árið 2013. En tímabil veiðireynslu á hins vegar að vera frá 2008–2018.

Það er því undarlegt að fram sé komið stjórnarfrumvarp sem mismunar útgerðaraðilum eftir stærð og aðstöðu til veiða. Smábátaeigendur höfðu engin tök á að afla sér veiðireynslu á fyrri hluta tímabilsins þegar makríllinn var á fjarlægum miðum, langt utan farsviðs þeirra.

Núna í dag finnum við okkur í þeirri stöðu að hæstv. ráðherra ætlar sér að refsa minni útgerðum landsins fyrir að hafa ekki getað stundað veiðar á fyrri hluta tímabilsins. Hvers vegna, virðulegi forseti, leggur hæstv. ráðherra það ekki til að bjóða út veiðar á makríl og fá sambærilegt verð fyrir auðlindina og t.d. í Færeyjum, eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á hér í ræðu sinni áðan? Nei. Einhverra hluta vegna sjáum við hér algjört áhugaleysi ráðherra á því að fara hina eðlilegu og réttlátu útboðsleið.

Í sjávarútvegsstefnu Pírata segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, skal bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð og skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar.

Allur afli skal fara á markað til að gera viðskipti með sjávarútvegsafurðir eðlilegri og bæta hag sjómanna, minni sjávarútvegsfyrirtækja og annara fyrirtækja sem vinna með afleiddar afurðir.“

Maður hefði haldið að svona frjáls markaðsleið væri samflokksmönnum hæstv. ráðherra samboðin. En greinilega er afskaplega lítill samhljómur með grunnhugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins á blaði og gjörðum hans í ríkisstjórn.

Forseti. Við sem hér á Alþingi störfum ættum að vera kjörin til að tryggja frjálsræði til veiða og að þjóðin njóti ágóða auðlinda í sinni eign. Nú þegar ferðaþjónustan, sem nýlega tók fram úr sjávarútveginum sem arðbærasta atvinnugrein þjóðarinnar, hefur á síðustu dögum beðið stórkostlegan hnekki er viðbúið að sjávarútvegurinn komi fljótlega til með að skipa stærri sess í hagkerfi landsins. Eigum við þá, kjörnir fulltrúar landsmanna, að líða það að ríkisstjórnin geri hér enn eina atlögu að þessari þjóðaratvinnugrein? Og það á kostnað minni útgerða, aðallega á landsbyggðinni?

Það er gömul saga og ný að víða er og hefur lengi verið pottur brotinn í fiskveiðistjórnarkerfi Íslands með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðarbúið og byggðir til sjávar og sveita. En virðulegi forseti, mér er misboðið að sjá þessa atlögu að smærri útgerðum enn eina ferðina. Í dag verðum við vitni að því að hæstv. ráðherra leggur til lögbundna mismunun sem er, að mínu mati, brot á jafnræðisreglu alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ég minni á að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að fylgja ákvæðum samningsins.

Hér á fyrri árum og öldum var það réttur okkar Íslendinga að fá að njóta náttúruauðlinda sem við eigum saman sem þjóð. Hvernig samrýmist þetta plagg sem við tökum hér fyrir í þingsal í dag hagsmunum fólks í sjávarbyggðum landsins — sem einmitt vegna svona afleitrar lagasetningar í gegnum tíðina hefur verið svipt lífsviðurværi sínu? Svar mitt, virðulegi forseti, við þeirri spurningu er: Það gerir það hreint ekki.

Hér erum við að sjá það lagt til að meingallað kvótakerfið verði gert að enn stærra þjóðarmeini í stað þess að nýta hér stórkostleg tækifæri til að prófa aðrar aðferðir við úthlutun veiðileyfa. Hv. þingmenn eru hér oft á tíðum yfirlýsingaglaðir um áætlanir og vilja sinn til að nýta umboð sitt hér á þingi til að bæta kjör og kost þeirra sem búa í sjávarbyggðum og minni byggðarlögum landsins. Þetta er ekki leiðin til þess.