149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[23:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, eða stjórn veiða á makríl. Samkvæmt frumvarpinu á að úthluta aflahlutdeild til skipa byggt á veiðireynslu þeirra á tímabilinu 2008–2018. Byggja þarf á 10 bestu árum af þessu 11 ára tímabili.

Í greinargerð með frumvarpinu er tekin upp aflamarksstjórn. Er lagt til að tekin verði upp aflamarksstjórn á veiðum á makríl, en fram til þessa hefur stjórn á veiðunum lotið reglugerðum sjávarútvegsráðherra og leyfum Fiskistofu til eins árs í senn. Þannig er talið tímabært og raunar skylt að taka upp slíkt skipulag, en það hafi dregist vegna ágreinings um skiptingu aflaheimilda. Úr þeim ágreiningi hafi verið leyst með tveimur dómum Hæstaréttar. Þar var fallist á kröfur tveggja útgerðarfyrirtækja um skaðabótaábyrgð ríkisins vegna þess að skipum í þeirra eigu hafi verið úthlutað minni aflaheimildum á árunum 2011–2014 en skylt hafi verið samkvæmt lögum um veiðar utan lögsögu Íslands.

Forsendur dómanna eru þær að lögin gera ríkinu skylt að úthluta aflahlutdeild til veiða á deilistofni eins og við á um makrílinn, sé ákvörðun tekin um að takmarka heildarafla við veiðar úr stofninum. Við þá úthlutun eigi að taka mið af samfelldri veiðireynslu sé hún til staðar og sé ráðherra ekki heimilt að líta til annarra sjónarmiða við skiptingu heimilda. Þannig var komist að þeirri niðurstöðu að úthlutun aflaheimilda á þessum tíma hafi gengið í berhögg við lög. Þannig mætti úthlutun leyfilegs heildarafla til skipa ekki byggjast á öðrum grundvelli en veiðireynslu.

Á árunum fyrir 2008 var það mikil gæfa þegar makríllinn fór að venja komur sínar upp að landinu, í nálægð við það, vegna þess að eftir hrun má með sanni segja að þessi fiskur hafi hreinlega orðið til þess að þjóðarskútan fór ekki hreinlega á hliðina. Veiðar á þessum fiski hófust fyrir árið 2008. Við úthlutun aflaheimilda í makríl árið 2011 var skylt að ákvarða aflahlutdeild skipa á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil skipanna á undangengnum sex veiðitímabilum. Nokkur útgerðarfyrirtæki sem þannig töldu sig hafa fengið úthlutað minni aflahlutdeild í makríl á þessum árum, 2011 og 2014, en þeim bar miðað við veiðireynslu og í samræmi við lög fóru í dómsmál við ríkið, sem tafði, að sögn, lagasetningu þá sem hér er komin fram. Tap sem þessi fyrirtæki töldu sig hafa orðið fyrir nemur verulegum fjárhæðum.

Það er þannig ljóst að aðdragandi þessarar lagasetningar eru dómar Hæstaréttar í málum 508 og 509 frá 2017, þar sem viðurkennd var bótaskylda íslenska ríkisins vegna fjártjóns sem tvö útgerðarfélög töldu sig hafa orðið fyrir og rakið er til úthlutunar aflaheimilda í makríl 2011–2014.

Í dómunum er viðurkennt að meginreglan sé sú að hlutdeildarsetja á miðað við þrjú bestu árin á síðustu sex árum og er þar horft til þeirra fyrirtækja og skipa sem öfluðu sér veiðireynslu á grundvelli ákvæða gildandi laga um stjórn fiskveiða um hvernig fara skuli með úthlutun veiðiréttinda í tilvikum sem þessum. Er veiðireynslan þar lykilþáttur í öflun réttar til framtíðar eða í stofni eins og gert var með kolmunnann 2001.

Í dómunum kemur fram ítrekað mikilvægi þess að samræmd stjórn gildi um veiðar úr stofnum sem veiðast bæði innan og utan íslensku lögsögunnar, eins og á t.d. við um loðnustofninn.

Menn hafa auðvitað ýmsar og alls kyns skoðanir á þessu máli og hvernig útdeila á kvótanum og veiðiréttinum. Við höfum hlustað á ræðumenn hér í dag og í kvöld reifa tillögur sínar og flokka sinna. Þar hafa komið fram margháttaðar tillögur. Auðvitað hafa menn alltaf skoðanir á þessu og menn munu alltaf rífast um gæði heimsins, eins og kannski má segja. Ég vil vara við því og það er mín skoðun að það sé mjög varhugavert að kasta þessum heimildum eða rétti til veiða upp í loftið eins og um einhverja tívolíbombu væri að ræða, og vona að það fari bara vel.

Það sem ég vil hins vegar gera að umtalsefni hér er frumkvöðlarétturinn, sem er og var sniðgenginn við úthlutun aflaheimilda í makríl á árunum fyrir 2010. Þá er ég að tala um þá sem leggja á sig áhættu og tilraunastarfsemi í slíkum atvinnurekstri sem fiskveiðar eru og fá svo ekki nokkra umbun þegar tegundin er síðar kvótasett, eins og um er að ræða í makrílnum.

Í álitsgerð starfshóps sjávarútvegsráðherra um viðbrögð vegna dóms Hæstaréttar vegna ólögmætis reglugerða um makrílveiðar segir að ráðherra hafi á fyrstu árum veiðanna ekki litið til frumkvöðlaréttar samkvæmt 9. mgr. 5. gr. úthafsveiðilaganna. Í því ákvæði er vísað til heimildar ráðherra til að ákveða að allt að 5% heildarafla skuli úthlutað til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofni. Í álitsgerð starfshópsins segir jafnframt að útgangspunkturinn sé sá að þegar veiðar á tilteknum stofni eru takmarkaðar ber að taka tillit til réttinda þeirra sem fram til þess hafa stundað veiðar úr þeim stofni og eftir atvikum ráðist í fjárfestingar í því skyni en þurfa síðan að sæta aflatakmörkunum.

Herra forseti. Ég ætla að lesa hér úr umsögn Vinnslustöðvarinnar, sem send var atvinnuvegaráðuneytinu um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er ekki áætlað að úthluta meiri hlutdeild til þeirra aðila sem með áhættusamri sókn í nýjan stofn makríls á sínum tíma og með miklum kostnaði tókst að afla meiri verðmæta …“

Og síðar:

„Þeir sem sækja á ný mið með tilheyrandi áhættu ættu að fá að njóta frumkvæðisins. Þær útgerðir sem voru tilbúnar að leggja í kostnað við að leita makríls og styðja við íslenskar hafrannsóknir ættu […] að eiga meira tilkall en þær útgerðir sem ekkert gerðu fyrr en ljóst var að veiðar á makríl væru ákjósanlegar.“

Þetta eru þeir aðilar sem stunduðu tilraunaveiðar á makríl löngu áður en aðrir komu þar að, þar á meðal ríkið, og sýndu nokkurn áhuga á þessum stofni. En nú vilja allir Lilju kveðið hafa.

Fyrirsjáanleikinn er mikilvægur í stjórn fiskveiða sem mynda hvata fyrir aðila í sjávarútvegi að afla sér og þjóðarbúinu veiðireynslu í ónýttum stofnum og að fá að njóta frumkvæðis af sókn sinni í nýjar tegundir. Þess vegna set ég spurningarmerki við af hverju ekki er miðað að einhverju leyti við veiðireynslu fyrstu áranna fyrir 2008 þegar frumkvöðlarnir fóru til veiða úr þessum stofni, sem þá var að synda í fyrsta skipti í grennd við landið. Sú vegferð kallaði auðvitað á áræðni og uppfinningasemi að vera fyrstur til veiðanna og leiðir til þess að maður hugsi hvort þeir aðilar eigi ekki að fá að njóta þeirrar frumkvöðlastarfsemi sinnar í einu eða neinu með þessu frumvarpi.

Loks tel ég, herra forseti, að mál þetta þurfi gaumgæfilegrar skoðunar við í atvinnuveganefnd.