149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

776. mál
[23:28]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Nú er langt liðið að kvöldi og óþarfi að vera að lengja þetta mjög mikið úr því sem komið er. En það er alveg ljóst að þetta makrílfrumvarp sem kemur inn í atvinnuveganefnd þarf skoðunar við eins og önnur frumvörp og hér er sérstaklega eldfimt efni á ferðinni. Ráðuneytið er búið að liggja lengi yfir þessu og þetta er niðurstaðan. Ráðherra sagði hér í upphafi að í kjölfarið á dómsmálum væri þetta ákveðin niðurstaða. Við þurfum að fara yfir þetta í nefndinni og skoða það.

Mig langar aðeins að gera að umræðuefni það sem hér hefur komið fram hjá ræðumönnum Samfylkingarinnar og Viðreisnar þar sem rætt er um útboð á makríl. Þessi útboð, hvað snýr að Færeyingum, eru þannig að verið er að bjóða upp nokkur tonn. Þetta er afar lítið hlutfall af makríl sem Færeyingar hafa veitt. Ég þekki það auðvitað ekki í Chile, ég veit ekki hve mikið við eigum sameiginlegt með þeim, en við eigum margt sameiginlegt með Færeyingum. Það liggur alveg fyrir að þegar boðið er upp lítið magn af fisktegundum fer það jafnan á háu verði. Það þarf ekki að miða heila fiskstofnana við 89 kr. á makríl, þegar meðalverðið á mörkuðunum var í fyrra um 65 kr.

Mér finnst gæta endalausrar gleði við að skatta og leggja á skatta endalaust og helst má ekki vera búið að veiða fiskinn áður en búið er að skattleggja hann. Við erum að baksa við að koma fram eldisfrumvarpi og þar skipta skattarnir líka mestu máli og þá er verið að tala um viðbótarskattana, veiðigjöldin. Það er rétt farið að slátra fyrstu löxunum af þessum 70 þús. tonnum sem við ætluðum að fara að vinna á hverju ári, og það þarf helst að leggja skatt á þá löngu áður en þeir hafa náð fullri stærð.

Þó að það gangi ágætlega að tala þetta ofan í höfuðborgarbúana sem eru kannski ekki mikið inni í fiskveiðunum, að mér finnst — og reyndar kannski fólk á landsbyggðinni allri. Það eru engar tengingar, hvorki við sjósókn né landbúnað, nú orðið í þessu landi. Fólk veit ekkert hvað er að gerast og heldur að útgerðin geti borgað endalaust. Þó að hún ráði við að borga veiðigjöld er ekki hægt að ganga endalaust að þessari atvinnugrein, ekki endalaust.

Virðulegi forseti. Það er annað sem ég vil nefna sem mér finnst ég verða að koma að. Það kemur fram að þegar makríllinn kemur upp að landinu og kemur fyrst austan til, við Glettingsflak og Rauða torgið og á þessum gömlu slóðum djúpt úti af landinu, þá voru engir smábátar að veiða þar, ekki fyrstu árin. Það varð ekki fyrr en síðar. Á Suðurnesjum, þar sem makrílvertíð hefur skipt æ meira máli á undanförnum árum, þar sem fryst hafa verið 7 þús. tonn á vertíð eingöngu af krókamakríl, þá er það alveg ljóst að litlir bátar þar sem hafa verið með kvóta eru kannski að fá úthlutað samkvæmt þessum hugmyndum, eða þessum lögum, 50–70% af því sem þeir eiga. Þær útgerðir munu ekki rísa undir einu eða neinu.

Við þurfum því að skoða hvernig við ætlum að taka smábátana í þessu. Þeir fá 2,89% úthlutað í þessu aflamarki hér, en þeir hafa yfirleitt verið með svona 5,3% af heildarafla í tegundum, þannig að við þurfum að skoða það. Það hefur komið fram hjá formanni nefndarinnar og fleirum að sérstök ástæða sé til að skoða það og setja sérstakan pott fyrir smábáta. Við munum gera það. Við munum skoða það. Við viljum líka skoða úthlutanir á fleiri bátum, millistærðinni, og fara vel yfir þetta. Ég veit að mikil vinna hefur verið lögð í þetta í ráðuneytinu. Það er góð vinna til að byggja á. Það er góð vinna til þess að fara heim og sofa á, held ég.