149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

úthlutunarreglur LÍN.

[15:18]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim áhuga sem formaður Samfylkingarinnar sig sýnir Lánasjóði íslenskra námsmanna og kjörum námsmanna. Það er hárrétt sem hann segir að það skiptir verulega miklu máli hvernig við högum þessum málaflokki. Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að við höfum verið að hækka frítekjumarkið um 43% á milli ára, og þetta var, eins og hefur komið fram í máli stúdenta, eitt stærsta kjaramál þeirra, enda hafa þeir fagnað því.

Í annan stað eru kynntar núna í ríkisfjármálaáætlun umtalsverðar kerfisbreytingar á námslánakerfinu og við höfum ekki farið í slíkar breytingar síðan 1992. Loksins er komin ríkisstjórn sem hefur kjark og þor til að fara í kerfisbreytingar og breyta þessu þannig að eftir verði tekið. Og hver eru nú leiðarljósin í þessum kerfisbreytingum? Jú, það er annars vegar að kjör námsmanna á Íslandi verði sambærileg því sem gerist á Norðurlöndunum og í öðru lagi að fjölskylduaðstæður þurfi ekki að verða þess valdandi að viðkomandi aðili skuldi miklu meira, t.d. hjón með börn eða annað slíkt. Ég er afskaplega stolt af því að sjá loksins fram á þessar miklu kerfisbreytingar og að kjör námsmanna verði allt önnur eftir þessar breytingar en áður var.