149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

fyrirvari við þriðja orkupakkann.

[15:23]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að við erum að fara að fjalla um risastórt mál í dag, þriðja orkupakkann svokallaða. Þingsályktunartillaga kemur núna fyrst frá hæstv. utanríkisráðherra.

Það hefur komið fram á vef ráðuneytisins að hæstv. ráðherra átti í samtali við Miguel Arias Cañete, framkvæmdastjóra orkumála Evrópusambandsins. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað gefið það út í fjölmiðlum að þar hafi menn verið að setja ákveðinn fyrirvara inn í samninginn þannig að hafið sé yfir allan vafa að ekki sé um að ræða raunverulegt fyrsta skref í áttina að því að tengja okkur við orkumarkað Evrópu. Mig langar til að vita hjá hæstv. ráðherra hvort þetta hafi ekki verið óformlegt samtal og hversu vel hann telji að þessi fyrirvari haldi í ljósi þess að hann hefur t.d. ekki verið lagður fyrir sameiginlegu EES-nefndina.

Þetta er grundvallaratriði sem við þurfum að hafa á hreinu vegna þess að úti í samfélaginu, eins og vitað er, er ákveðið óöryggi og ákveðinn ótti hefur gripið um sig. Sumir vilja kalla að hér sé verið að beita hræðsluáróðri og slíku en eigum við ekki bara að reyna að gera þetta í sátt og samlyndi þannig að allir geti við unað?