149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

fyrirvari við þriðja orkupakkann.

[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil byrja á því að segja að ég er mjög ánægður með þann tón sem kemur fram hjá hv. þingmanni. Ég held nefnilega að það sé mjög mikilvægt í þessu máli, sem margar yfirlýsingar hafa flogið um og ég held að alveg óhætt sé að segja að það hafi verið reynt að hræða ýmsa. Ég held að það sé rétt að nálgast þetta nákvæmlega eins og hv. þingmaður gerir. Við skulum bara ræða þetta í rólegheitunum, fara vel yfir það og draga fram staðreyndir málsins.

Síðan eigum við að hugsa þetta út frá einu — íslenskum hagsmunum. Það er það eina sem við eigum að hugsa um að mínu áliti.

Ég hef nefnilega verið nokkuð hugsi. Vegna þess að í þessari umræðu allri er það, alla vega í mínu minni, í fyrsta skipti sem erlendir aðilar eru á fleygiferð að skipta sér af í íslenskum stjórnmálum. Þeir aðilar eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni. Svo að ég tali alveg skýrt er ég hér að vísa til samtaka og stjórnmálaflokka í Noregi sem veigra sér ekkert við að vaða hér inn með allra handa fullyrðingar um þessi mál sem sjaldnast, ef nokkurn tímann, standast neina skoðun.

Ég vil bara að umræðan verði á þeim nótum sem hv. þingmaður er með, að við förum yfir þetta, förum yfir allar þær fullyrðingar sem hafa komið fram og skoðum þær. Því að það er leiðin til að ná niðurstöðu.

Það sem hv. þingmaður vísar í er að þetta var sameiginleg yfirlýsing af minni hálfu og orkumálaráðherra ESB, svokölluð pólitísk yfirlýsing, sem ég tel gagnlega í umræðunni. Hún er hvorki meira né minna en það. Því hefur aldrei verið haldið fram á neinu stigi máls að hún sé neitt annað en nákvæmlega það.

En mönnum hefur þótt þetta vera gagnlegt, þeim sem hafa nálgast þetta með málefnalegum hætti. Þarna er hins vegar bara verið að benda á hið augljósa.